Fréttir

Hamar hafði betur gegn Vestra

Körfubolti | 21.10.2016
Yngvi Gunnlaugsson og lærisveinar hans áttu erfitt kvöld í gegn Hamri.
Yngvi Gunnlaugsson og lærisveinar hans áttu erfitt kvöld í gegn Hamri.

Hamarsmenn höfðu betur gegn Vestra í kvöld og unnu leikinn með 23 stigum, 69-92. Leikurinn fór vel af stað hjá Vestra en fljótlega fór að halla undan fæti og Hvergerðingar gengu á lagið.

Vestra menn byrjuðu leikinn af krafti, hittu vel og keyrðu hratt. Þessi framistaða skilaði liðinu mest 10 stiga forystu 22-12 og leit það glimrandi vel út fyrstu átta mínútur leiksins. Hamarsmenn söxuðu á þetta forskot undir lok fjórðungsins en Vestri leiddi engu að síður að honum loknum 23-19. Þegar annar fjórðungur hófst fór þó fljótlega að halla undan fæti. Það var líkt og allur vindur væri úr Vestra og Hamarsmenn gengu á lagið og leiddu með 15 stigum í hálfleik. Það var nánast eins og leiknum væri lokið þá, líkt og menn hefðu misst trúnna og báráttunna fyrir þessu verkefni. Í raun var því aldrei spurning hvernig leikurinn færi því ekkert benti til að okkar menn myndu ná yfirhöndinni aftur í log varð munurinn mestur 31 stig í stöðunni 47-78. Í loka fjórðungnum náðist þó að saxa forskotið niður og ungir leikmenn beggja liða fengu mínútur.

Fyrirfram var á brattann að sækja, Hinrik gat ekki beitt sér nema í fyrsta fjórðungi þar sem hann hefur ekki náð sér alveg af meiðslum. Nökkvi er einnig lítillega meiddur auk þess sem Nebojsa er ekki orðinn alveg heill eftir meiðsl í fyrsta leik tímabilsins.

En það er stutt í næsta leik því strákarnir mæta ÍA á Skaganum á sunnudag. Það er því ekkert annað að gera en að rífa sig upp og sýna baráttu og kraft sem sumpart vantaði dálítið upp á í kvöld.

Tölfræði leiksins.

Hér að neðan má svo sjá viðtöl við þjálfara liðanna, Yngva Gunnlaugsson og Andra Þór Kristjánsson.

+

Deila