Fréttir

Vestri mætir Hamri

Körfubolti | 16.02.2017
Yngvi Gunnlaugsson og lærisveinar hans í meistaraflokki karla mæta Hamri á Jakanum föstudaginn 17. febrúar kl. 18:30. Ljósmynd: Ólafur Þór Jónsson, karfan.is.
Yngvi Gunnlaugsson og lærisveinar hans í meistaraflokki karla mæta Hamri á Jakanum föstudaginn 17. febrúar kl. 18:30. Ljósmynd: Ólafur Þór Jónsson, karfan.is.

Meistaraflokkur karla í körfubolta tekur á móti Hamri í 1. deildinni á föstudaginn hér heima á Jakanum. Leikurinn hefst fyrr en venjulega eða kl. 18:30.

Vestri og Hamar sitja jöfn að stigum í 5.-6. sæti deildarinnar en það lið sem nær í 5. sætinu fer í úrslitakeppnina og mætir liðinu sem hafnar í 2. sæti. Leikurinn er því gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið þar sem innbyrðist viðureignir geta skorið úr um hvort þeirra kemst áfram í úrslitakeppnina. Það verður því án efa hart barist á parketi Jakans á föstudag og skiptir stuðningur áhorfenda því miklu máli. Við hvetjum alla til að mæta og styðja Vestramenn í baráttunnu.

Öllum nemendum 7.-10. bekk á norðanverðum Vestfjörðum er sérstaklega boðið á leikinn. Tilefnið er að piltar á þessu aldursbili urðu bikarmeistarar KKÍ um síðustu helgi. Leikmenn meistaraflokks og Yngvi Gunnlaugsson, yfirþjálfari hafa kíkt í heimsókn í nokkra grunnskóla á svæðinu í dag og í gær og boðið þessa krakka sérstaklega velkomna á leikinn og vonumst við til að sem flestir mæti og styðji við bakið á meistaraflokki. Rétt er að geta þess að grunnskólanemendur fá alltaf frítt inn á heimaleiki Vestra. Strákarnir í 9. flokki koma svo fram í hálfleik og hampa bikarnum góða.

Grillið verður í fríi þetta kvöld en pylsupottur Barna- og unglingaráðs sér svöngum munnum fyrir ljúffengum pylsum.

Áfram Vestri!

Deila