Fréttir

Frábær árangur allra liða á Íslandsmóti yngri flokka - Skellur Íslandsmeistari A-liða í 5. flokki.

Blak | 17.04.2012 Í yngri flokka blaki er kynjum gjarnan blandað í liðum, enda eru strákarnir ekki endilega sterkari a.m.k. ekki þegar krakkarnir eru ungir. Í 4. og 5. flokki er spilað í fjögurra manna liðum og ef það eru tveir strákar eða fleiri skráist liðið sem drengjalið.

Skellur 1 í 5. flokki pilta:

Leikmenn: Birkir, Bjarni Pétur, Ívar Tumi og Auður Líf.
Þessir krakkar eru öll miklir íþróttamenn og æfa margar íþróttagreinar. Það kom sér vel á mótinu því þau hafa mikla reynslu af keppni. Fyrir tveimur árum varð þetta lið Íslandsmeistari í flokki C-liða eftir harða rimmu við Aftureldingu. Í fyrra urðu þau svo Íslandsmeistarar A-liða með minnsta mögulega mun á Aftureldingu. Eftir fyrra mótið í haust voru þau í öðru sæti á eftir Aftureldingu og því var ljóst að þau þurftu að vinna Aftureldingu og helst alla hina leikina líka á þessu móti, til að tryggja sér titilinn. Leikurinn á móti Aftureldingu var fyrsti leikur mótsins kl. 8 á laugardagsmorgni og okkar krakkar höfðu setið í rútu daginn áður. Þjálfarinn hafði því smá áhyggjur af þessari stöðu sem reyndust alveg óþarfar. Krakkarnir mættu einbeitt og glaðvakandi til leiks og í raun aldrei spurning hvernig leikurinn færi. Þau tóku síðan hvern leikinn á fætur öðrum og unnu örugglega. Þjálfarinn myndi gjarnan vilja fá eitthvað af þessu "keppniselementi" hjá Skelli 1 í 5. flokki flutt yfir á meistaraflokka félagsins :-)

Skellur 2 í 5. flokki pilta:
Leikmenn: Ágúst, Ólína, Hrefna, Bensi og Birta Rós
Liðið keppti í sömu deild og Skellur 1, þ.e. deild A-liða, þar sem ekki voru nógu mörg lið til að hafa deild B-liða pilta. Þau stóðu sig sérlega vel á þessu móti og unnu t.d. A-lið Þróttar Nes í spennandi leik sem fór í oddahrinu, en þeir sem vita eitthvað um blak á Íslandi átta sig á því hvað það er góður árangur. Þau náðu 4. sætinu á þessu móti. Krakkarnir í þessu liði eru tæknilega góð en stundum vantar herslumuninn á hreyfinguna. Það hefur þó orðið mjög mikil framför á því sviði í vetur.

Skellur C í 5. flokki pilta:
Leikmenn: Dísa Líf, Hafsteinn Már, Krzysztof, Þórunn Birna, Karólína og Katla Vigdís
Liðið spilaði 3. stig á mótinu í haust og 4. stig núna, sem er orðið venjulegt blak. Þau voru í 2. sæti eftir fyrra mótið. Þau keppa í deild sem í eru mörg lið og var deildinni skipt í tvo riðla. Þau unnu sinn riðil á þessu móti og áttu þá undanúrslitaleik á móti HK. Sá leikur var mjög jafn og spennandi og endaði með 2-1 sigri okkar krakka. Úrslitaleikurinn var á móti mjög spræku liði Dímon á Hvolsvelli. Í því liði eru strákar sem hreyfa sig gríðarlega mikið og eru út um allan völl og það gerði útslagið með sigur þeirra. Okkar krakkar eru ekkert síðri tæknilega séð. Það verður spennandi að fylgjast með þessu liði keppa meðal A eða B-liða á næsta ári.

Skellur g í 5. flokki blönduð deild:
Leikmenn: Magnús Þórir, Guðrún Ósk, Gísli Steinn og Sóldís Björt
Þetta lið keppti ekki á mótinu í haust og spilaði því í deild gestaliða á þessu móti. Þau spiluðu 3. stig þar sem annar bolti er gripinn og það þurfa að vera þrjár snertingar. Þetta stig er mjög skemmtilegt og þjálfar þau í réttu blakspili og loturnar verða oft ansi langar. Liðið endaði í 2. sæti í sinni deild aðeins einu stigi á eftir Fylki. Þetta eru allt sérlega efnilegir krakkar sem eiga eftir að gera það gott á Íslandsmótum í framtíðinni.

Skellur í 4. flokki pilta
Leikmenn: Kjartan Óli, Telma Rut, Daníel Snær, Birkir og Auður Líf.  Á fyrra mótinu spiluðu Bjarni Pétur og Ívar Tumi einnig með liðinu.
Hjá Skelli eru aðeins þrír leikmenn í 4. flokki og því var fyllt upp í liðið með leikmönnum úr 5. flokki. Þau spila í deild A-liða. Í stuttu máli má segja að þau hafi unnið öll þau lið sem þau áttu minnsta möguleika á að vinna og árangurinn því mjög góður. A-lið HK ber höfuð og herðar yfir önnur lið í deildinni og smöss og uppgjafir hjá þeim eins og best gerist hjá mun eldri leikmönnum. A-lið Þróttar Nes er klárlega næst besta liðið í deildinni, en hin liðin voru jafnari og mjög gott hjá okkar krökkum að vinna þau og ná 3. sætinu á Íslandsmótinu.

Skellur í 3. flokki stúlkna
Leikmenn: Viktoría Kristín, Svanhildur, Dóróthea, Klaudia, Eva Karen, Elsa og Telma Rut
Í 3. flokki er spilað venjulegt blak á stórum velli í 6 manna liðum. Það háir stelpunum okkar að hluti af þeirra æfingum er í litla íþróttahúsinu við Austurveg þar sem þær geta ekki almennilega æft á stórum velli. Þær kepptu í deild B-liða, en a.m.k. tvö liðanna áttu mun frekar heima í deild A-liða og flest liðanna eru komin töluvert lengra en okkar stelpur. En Skells-liðinu hefur  farið mikið fram í vetur og var mikill munur á liðinu núna frá því á mótinu í haust. Þær enduðu á því að vinna lið Dímons í spennandi leik sem var mjög skemmtilegt. Klaudia hefur verið að æfa með meistaraflokki í vetur og hún stóð sig vel á mótinu - rakaði t.d. inn stigum í uppgjöfum. Þær þurfa  fleiri að komast á fleiri æfingar með meistaraflokki kvenna næsta vetur.

Í heildina er ekki hægt annað en að vera rífandi stoltur af okkar krökkum. Þau voru til fyrirmyndar í alla staði, bæði innan vallar og utan. Oft myndaðist skemmtileg stemmning í kringum Skells-leiki þar sem hópurinn safnaðist saman og hvatti og söng....

Takk fyrir góða ferð,

Harpa
Deila