Fréttir - Blak

Vestri C deildarmeistari þriðju deildar

Blak | 21.03.2023
Strákarnir í Vestra C fagna deildarmeistaratitlinum ásamt þjálfara sínum, Juan Escalona, og liðsstjóranum Sigurði Jóni Hreinssyni
Strákarnir í Vestra C fagna deildarmeistaratitlinum ásamt þjálfara sínum, Juan Escalona, og liðsstjóranum Sigurði Jóni Hreinssyni

Vestri C - ungmennalið blakdeildar Vestra - gerði góða ferð austur á Neskaupstað um nýliðna helgi, en þá fór fram loka keppnishelgi þriðju deildar karla í blaki.

Keppnisfyrirkomulag í þriðju deild er þannig að spilaðar eru þrjár helgarlotur („túrneringar") sem dreifast yfir veturinn. Í tveimur fyrri lotunum mætast liðin 12 í deildinni innbyrðis, en fyrir loka keppnishelgina er deildinni svo skipt upp, þannig að sex efstu liðin fara í A úrslit um deildarmeistaratitilinn, en sex neðri liðin fara í B úrslit.

Vestrastrákarnir höfðu spilað frábærlega fyrstu tvær helgarnar og sátu í efsta sæti deildarinnar að þeim loknum. Í úrslitakeppninni héldu þeir uppteknum hætti gegn hörku góðum andstæðingum, í leikjum sem stundum voru full jafnir og spennandi fyrir áhorfendur með Vestra hjarta. En drengirnir sýndu mikinn aga og þroska í sínum leik og stóðu þétt saman. Þegar kom að lokaumferðinni höfðu þeir lagt alla andstæðinga sína að velli og mættu öðru taplausu liði, „Afturelding ungir", í hreinum úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn. Þess má geta að mótherjarnir í þeim leik eru þjálfaðir af Vestramanninum Hafsteini Sigurðssyni sem nú stundar nám syðra og spilar með úrvalsdeildarliði Aftureldingar. Lærisveinar Hafsteins mættu grimmir til leiks í fyrstu hrinu, tóku afgerandi forystu og voru komnir í 16-24 áður en Vestrastrákarnir hrukku í gírinn, skoruðu 10 stig í röð og náðu að snúa nánast vonlausri stöðu í sigur eftir upphækkun, 26-24. Í næstu hrinu tóku okkar drengir fljótlega frumkvæðið og tryggðu sér sigur, 25-19. Þar með var deildarmeistaratitillinn í höfn.

Uppistaðan í liði Vestra C eru strákarnir sem urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar í sínum aldursflokki, U16, í fyrravetur. Í ár fengu þeir að spreyta sig í þriðju deild karla með þessum frábæra árangri og hafa nú tryggt sér keppnisrétt í annarri deild næsta vetur.

Nánar

Takk fyrir stuðninginn

Blak | 13.03.2023
Að loknum leiknum gegn KA
Að loknum leiknum gegn KA
1 af 4

Kjörísbikarúslitahelgin 2023 verður lengi í minni okkar í blakdeild Vestra.  Það er útaf fyrir sig ákveðið afrek að komast á þessa úrslitahelgi, þriðja árið í röð.  En að fá að spila úrslitaleikinn er algerlega frábær upplifun.  Og þó svo að draumurinn hafi í dálitla stund verið stærri en úrslitin, þá er silfur á þessu stærsta árlega sviði blaksins á Íslandi eitthvað sem enginn þarf að vera súr yfir.

En svona hlutir gerast ekki af sjálfum sér.  Stuðningur samfélagsins skiptir í þessu samhengi öllu máli.  Að vera niðri á velli, með hálfa stúku af fólki öskrandi „Áfram Vestri“, sjá auglýsingaborðana renna yfir LED skjána og finna kraftinn í liðinu magnast við þetta er algerlega ómetanlegt.

Vestrafólk, styrktaraðilar og allir hinir, hjartans þakkir fyrir stuðninginn í þessu verkefni.  Takk Takk <3

Nánar

Úrslitaleikur Kjörísbikarsins

Blak | 11.03.2023

Í dag, 11 mars 2023 verður skrifaður nýr kafli í sögu Íþróttafélagsins Vestra, þegar karlaliðið okkar í blaki spilar til úrslita í Kjörísbikarnum.  Aldrei áður hefur lið í meistaraflokki spilað úrslitaleik um titil á hæsta level, undir merkjum Vesta.

Andstæðingarnir eru engir viðvaningar, ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Hamars úr Hveragerði.

Við í liðinu trúum því að þetta sé leikur sem við getum unnið.  En við þurfum hjálp frá ykkur !  Hvatning á pöllunum í Digranesi væri frábært, en góðir straumar og hlýjar hugsanir virka líka.

Fyrir þá sem ekki komast á völlinn, er útsending á RÚV og hefst leikurinn kl 13.00

Koma svo; Áfram, áfram, áfram VESTRI !!

Nánar

Úrslitahelgi Kjörísbikarsins 2023

Blak | 05.03.2023
17:30 á fimmtudaginn
17:30 á fimmtudaginn

Karlalið Vestra í blaki er komið í undanúrslit og þar með á úrslitahelgi Kjörísbikarsins 3ja árið í röð. Við erum sannarlega stolt af okkar liði, því það er svo sannarlega ekki sjálfgefið að vera með á þessari stóru helgi sem fer fram í Digranesi í Kópavogi.
Bæði undanúrslita og úrslitaleikir kvenna og karla verða sýndir beint á RÚV 9.-11. mars og er það í fyrsta skipti sem við fáum beina útsendingu frá undanúrslitaleikjum á RÚV. Við hvetjum allt okkar fólk, hvort sem það er tengt blakinu, tengt Vestra eða eru að Vestan, til að mæta á sem flesta leiki því bæði verður þarna boðið upp á blak af hæsta gæðaflokki og það skiptir ekki síður gríðarlega miklu máli fyrir íþróttafólkið sem er að spila, að sjá fulla stúku. Og fyrir sjónvarpið, þá er það vissulega flottara að við séum með fulla stúku og góða stemningu.

Sama fyrirkomulag er á miðasölu og undanfarin ár.  Á undanúrslitaleikina fimmtudag og föstudag kostar dagpassinn 2500 krónur en á úrslitadaginn sjálfan 3500 krónur. 50 % afsláttur verður fyrir börn fædd 2006-2011 og börn fædd 2012 og síðar fá frítt inn.

Miðar verða seldir í gegn um Stubb appið og rennur innkoman á undanúrslitin beint til liðanna.  Því er mikilvægt þegar þið kaupi miða að mekja við Vestra !!

Undanúrslit karla fara fram á fimmtudegi 9. mars og undanúrslit kvenna fara fram á föstudeginum 10 mars, eins og sjá má á auglýsingunni.

Úrslitaleikur karla hefst kl 13:00 á laugardegi 11. mars og úrslitaleikur kvenna kl 15:30.

Sunnudaginn 12 mars fer fram bikarmót yngri flokka og verður spilað frá kl 10:00 til 16:00.

Reiknum með ykkur í stúkunni Nánar

Vestri í undanúrslit Kjörísbikarsins 3 árið í röð

Blak | 27.02.2023
Kátir Vestrastrákar á Húsavík
Kátir Vestrastrákar á Húsavík

Karlalið Vestra í blaki, lagði land undir fót um liðna helgi, þegar þeir fóru og heimsóttu Völsung á Húsavík í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Völsungar höfðu áður fengið Blakfélag Hafnarfjarðar í heimsókn og lagt hafnfirðingana að velli nokkuð sannfærandi 3-0.

Vestri eru eins og alkuna er í fjórða sæti úrvalsdeildar, en Völsungar eru í efsta sæti 2. deildar.  Vel var mætt í PCC höllina á Húsavík, en talið er að áhorfendur hafi verið um 150 talsins og mikil stemming.

Mjög öflugt blakstarf er hjá Völsungi og er karlaliðið þeirra í uppbyggingarfasa, ungt og spennandi, undir handleiðslu okkar gamla þjálfara Tihomir Paunovski.  Liðið er að miklu leiti sama lið og vann Kjörísbikarinn í U20 móti fyrir rúmri viku síðan, þar sem úrslitaleikurinn var einmitt gegn U20 liði Vestra, en sá leikur endaði í oddahrinu og tóku Völsungar þá hrinu með minnsta mögulega mun, 15-13.

En það er stundum sagt um svona leiki, að þetta hafi verið skyldusigur hjá Vestra.  Okkar menn beittu hinsvegar ekki sínu sterkasta liði, heldur voru nokkrir ungir strákar með í ferðinni sem fengu að spila fullt og stóðu sig býsna vel.  Leikurinn varð því jafnari fyrir vikið, en Vestri vann leikinn 3-1 (25-18, 25-22, 25-27, 25-19).

Stigahæstir í liði heimamanna voru þeir Bjarki Sveinsson með 15 stig og Aron Bjarki Kristjánsson með 14 stig.  En í liði Vestra voru stigahæstir þeir Antonio Ortiz með 14 stig, Franco Molina með 13 og þeir Sverrir Bjarki Svavarsson og Juan Escalona með 10 stig hvor.

Framundan er því úrslitahelgi Kjörísbikarsins, sem fer fram dagana 9-12 mars nk.  Í pottinum karla megin eru Vestri, Afturelding, KA og Hamar.  Kvennamegin eru svo Völsungur, Þróttur Fjarðarbyggð, HK og KA.  Í hádeginu, miðvikudaginn 1. mars verður dregið hvaða lið eigast við í undanúrslitaleikunum og verður streymt frá úrdrættinum á FB síðu BLI.

 

Nánar

Úrvalsdeildarlið Vestra

Blak | 04.02.2023
Úrvalsdeildarlið Vestra 22-23
Úrvalsdeildarlið Vestra 22-23
1 af 4

Þá er farið að síga á seinni hlutann í úrvalsdeildinni í blaki þetta tímabilið, en Vestri er núna með karlaliðið á sínu fjórða tímabili í deild þeirra bestu á Íslandi.

Nánar

Tvö á toppnum

Blak | 18.01.2023
Vestri C er skipað strákum á aldrinum 14-16 ára.  Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar í U16
Vestri C er skipað strákum á aldrinum 14-16 ára. Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar í U16
1 af 2

Helgina 13-15 janúar var stór blakhelgi hjá okkur í Vestra.

Á föstudagskvöldinu spilaði úrvalsdeildar liðið okkar á móti HK í karlaflokki.  Einhver meiðsli hafa verið að hrjá liðið okkar og var því ljóst fyrirfram að það yrði við ramman reip að draga í þeim leik.  Fóru leikar svo að HK vann nokkuð sannfærandi 3-0 sigur á okkar mönnum.

Á laugardeginum og sunnudeginum voru það hinsvegar hin meistaraflokksliðin sem fengu að spreyta sig, kvennaliðið sem spilar í 4. deild og unglingarnir okkar í Vestri-C, sem spila í 3ju deild.  Báðar deildirnar voru spilaðar í Mosfellsbæ.

Skemmst er frá því að segja að liðin stóðu sig með stakri prýði. 

Kvennaliðið spilaði 6 leiki, unnu 5 af þeim en töpuðu einum leik í oddi 1-2.  Fjóra leiki unnu þær 2-0 og einn leikur vannst 2-1.  Eftir túnneringuna er kvennalið Vestra í efsta sæti 4 deildar með 28 stig (af 33 mögulegum), en næstu lið eru Blakfélag Hafnarfjarðar með 25 stig og Keflavík með 23.

Strákarnir spiluðu líka 6 leiki og unnu þá alla en töpuðu einni hrinu,sem er fyrsta hrinan sem þeir tapa í vetur.   Þeir sitja líka í efsta sæti í sinni deild, með 29 stig (af 30 mögulegum).  Næstu lið eru Leiknir Reykjavík með 26 stig og þar á eftir Afturelding ungir með 21 stig.

Í þriðja og síðasta neðrideildarmóti vetrarins sem verður helgina 18. til 19. mars, verður spilað til úrslita í deildunum.  Þá spila efstu 6 liðin saman og neðstu liðin sín á milli, úrslit á því móti ráða því hvernig sætaröðun verður í deildunum.  3ja deild karla verður spiluð í Neskaupstað en 4. deild kvenna hinsvegar í Kópavogi.  Það verður spennandi að sjá hvort að Vestra liðin nái að fylgja eftir þessu góða gengi á lokamótinu.

Næsti leikur karlaliðs Vestra í úrvalsdeild verður á næsta laugardag, 21 janúar.  Um er að ræða heimaleik á móti Þrótti frá Neskaupstað og hefst leikurinn kl 16.00, hér í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Nánar

Neðrideildarmót í blaki

Blak | 15.11.2022
Vestri kvk
Vestri kvk
1 af 6

Helgina 12-13 nóvember sl voru haldin fyrstu mótin af þremur helgartúnneringum, í neðrideildum íslandsmótsin í blaki.  Neðri deildir eru allar deildir fyrir neðan 1 deild.

Spilað var á 4 stöðum á landinu, í tveimur karladeildum og fimm kvennadeildum, alls 222 leikir og 78 lið.

Kvennalið Vestra spilaði á 4ju deildar móti í Laugardalshöll, sem Þróttur Reykjavík hélt utan um.  En hér á Ísafirði hélt Blakdeild Vestra mót fyrir 3ju deild karla þar sem 11 lið öttu kappi.  Á mótinu hér áttum við í Vestra lið, skipað að mestu strákum á aldrinum 14-16 ára.  En annars er oft mjög skemmtileg blanda af leikmönnum á þessum neðrideildarmótum.  Á mótinu hérna um helgina var yngsti leikmaðurinn 12 ára og sá elsti 73 ára.

Skemmst er frá því að segja að bæði lið Vestra komu út úr þessari helgi ósigruð.  Unnu alla sína leiki, strákarnir sína 4 leiki 2-0 og kvennaliðið vann 3 leiki 2-0 og aðra 2 leiki 2-1.  Við Vestrafólk getum því ekki annað en verið nokkuð sátt við útkomu helgarinnar.

Að loknu svona móti má alveg hrósa allnokkrum aðilum án þess að listinn verði endilega tæmandi.  Það er alveg ástæða til að þakka starfsfólki íþróttahúsins á Torfnesi fyrir góða helgi og aðstoðina, en mjög mikið var um að vera í húsinu þessa helgi, en auk blakmótsins fóru fram tveir körfuboltaleikir og einn handboltaleikur.  Þá er einnig ástæða til að hrósa öllum liðunum fyrir góða frammistöðu bæði innan vallar sem utan og sérstaklega við stigaritun sem gekk svotil hnökralaust fyrir sig.  Og allir þeir félagsmenn sem lögðu hönd á plóg við að láta alla þætti mótsins ganga upp, kærar þakkir.

Nánar

Fimm leikmenn frá Vestra valin í U17 unglingalandslið í blaki

Blak | 05.10.2022
U17 strákarnir
U17 strákarnir
1 af 2

Blaksamband Íslands hefur tilkynnt um val á unglingalandsliðum drengja og stúlkna (U17), sem keppa munu á NEVZA mótinu í blaki, en þar taka Norðurlandaþjóðirnar þátt ásamt Englendingum. Fimm ungmenni úr blakdeild Vestra voru valin í landsliðin, þau Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir, Benedikt Stefánsson, Pétur Örn Sigurðsson, Kacper Tyszkiewicz og Sverrir Bjarki Svavarsson.

Landsliðsvalið var býsna umfangsmikið ferli og fleiri krakkar úr Vestra bönkuðu þar á dyrnar, sérstaklega í drengjaflokki enda er lið Vestra ríkjandi Íslands- og bikarmeistari í aldursflokki 16 ára og yngri. Fyrsta umferð landsliðsvalsins fór fram í æfingabúðum sem Blaksambandið boðaði til í Reykjavík og Mosfellsbæ snemma í september og átti Vestri þar 7 fulltrúa í drengjaflokki og einn í stúlknaflokki. Að þeirri æfingahelgi lokinni var valinn 17 manna úrvalshópur hjá hvoru kyni, sem boðaður var til æfinga á Akureyri skömmu síðar. Þar átti Vestri sex fulltrúa í drengjaflokki og einn í stúlknaflokki. Næst var hópurinn skorinn örlítið niður og 14 stúlkum og 15 drengjum boðið í enn einar æfingabúðirnar, nú á Laugum í Þingeyjarsýslu. Þar voru sex fulltrúar frá Vestra, ein stúlka og fimm drengir. Í lokahópnum, sem telur 12 leikmenn af hvoru kyni, á Vestri svo eins og áður segir fimm fulltrúa, eina stúlku og fjóra drengi, eða þriðjung drengjalandsliðsins. Frábær frammistaða Vestra krakkanna í öllu þessu langa og stranga ferli er glæsilegur vitnisburður um það metnaðarfulla starf sem unnið er innan blakdeildar Vestra undir forystu Juan Escalona yfirþjálfara.

Krakkarnir hafa lagt á sig mikla vinnu og löng, kostnaðarsöm ferðalög til að taka þátt í þessu verkefni. Þeirra sem valin voru í lokahópinn bíða nú æfingabúðir í Reykjavík áður en haldið verður til Ikast í Danmörk, þar sem mótið fer fram. Blakdeild Vestra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem létt hafa undir með krökkunum á þessari afar krefjandi og lærdómsríku vegferð.

Nánar má lesa um unglingalandsliðin á heimasíðu Blaksambandsins, bli.is.

Nánar

Framhaldsaðalfundur blakdeildar Vestra

Blak | 23.09.2022

Boðað er til framhalds-aðalfundar blakdeildar Vestra fimmtudaginn 29 september nk. 

Fundurinn hefst kl 20.00 og verður haldinn í Vallarhúsinu á Torfnesi.

Á dagskrá eru stjórnarkjör og önnur mál.

Mikilvægt að félagsmenn fjölmenni og taki þátt í umræðu um starf vetrarins og framtíðina.

Stjórnin.

Nánar