Lög Íþróttafélagsins Vestra

1. grein

Heiti og markmið

Félagið heitir Vestri. Heimili þess og varnarþing er í Ísafjarðarbæ. Tilgangur félagsins er iðkun íþrótta og efling líkams- og heilsuræktar í Ísafjarðarbæ og Bolungarvík með heilbrigði og vellíðan að leiðarljósi. Einnig að efla samkennd með virkri þátttöku í íþrótta- og félagsstarfi.

 

2. grein

Merki og búningur

Aðalstjórn félagsins mun á fyrsta starfsári sínu ákveða merki félagsins og aðalliti þess. Útlit búninga félagsins og auglýsingar á þeim eru háðar samþykki aðalstjórnar.

 

3. grein

Aðild að heildarsamtökum

Félagið er aðili að HSV, UMFÍ, ÍSÍ og sérsamböndum þess eftir því sem við á hverju sinni.

 

4. grein

Félagar

Félagið mynda:

1. Heiðursfélagara

2. Ævifélagarb

3. Virkir félagarc

4. Styrktarfélagard

Félagi getur hver sá orðið sem óskar þess og samþykkir að taka á sig þær skyldur er því fylgja.

a) Þeir aðilar sem gerðir hafa verið að heiðursfélögum.

b) Allir sem náð hafa 50 ára aldri geta gerst ævifélagar.

c) Virkir félagar teljast þeir sem sækja æfingar hjá félaginu og þeir sem eru í stjórn félagsins eða gegna öðrum trúnaðarstörfum.

d) Styrktarfélagar teljast þeir sem ekki iðka íþróttir en vilja vera áfram félagar og styrkja félagið.

 

5. grein

Skipulag félagsins

Félagið er myndað af einstaklingum í íþrótta- og félagsdeildum ásamt félagsmönnum utan deilda.

Félagið hefur sameiginlega aðalstjórn sem er æðsti aðili þess milli aðalfunda. Málefnum félagsins er stjórnað af:

  1. Aðalfundi félagsins

  2. Félagsfundi félagsins

  3. Aðalstjórn félagsins

  4. Formannafundum

  5. Aðalfundum deilda

  6. Stjórnum deilda

  7. Flokksráð

 

6. grein

Aðalfundur félagsins, fundartími, tillögur og boðun

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en 31. mars ár hvert. Auglýsa skal aðalfundinn opinberlega með 10 daga fyrirvara. Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað. Í aðalfundarboði skal kynna dagskrá, fundartíma og fundarstað. Þá skal geta sérstaklega í fundarboði hvenær frestur til að skila inn framboði til formanns rennur út.

Framboð til formanns aðalstjórnar og almennar tillögur skulu berast skrifstofu félagsins eigi síðar en fimm dögum fyrir auglýstan aðalfund félagsins. Komi fleiri en eitt framboð til formanns þá skal kosið á milli þeirra sem hafa gefið kost á sér. Ekki er heimilt að koma með tillögur um formann á aðalfundi.

Tillögur um breytingar á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar 1. mars ár hvert. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins, sem síðar koma fram ef 2/3 hlutar viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.

 

7. grein

Dagskrá aðalfundar

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

  1. Fundarsetning.

  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

  3. Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram.

  4. Formaður félagsins gerir grein fyrir starfsemi aðalstjórnar á liðnu starfsári.

  5. Gjaldkeri félagsins leggur fram til samþykktar og gerir grein fyrir reikningum félagsins fyrir 1iðið starfsár, sem samþykktir hafa verið af kjörnum skoðunarmönnum reikninga.

  6. Ákvörðun félagsgjalds.

  7. Fjárhagsáætlun félagsins lögð fram til samþykktar.

  8. Lagabreytingar.

  9. Kosningar:

    1. Kosinn formaður.

    2. Kosnir þrír stjórnarmenn til tveggja ára í senn.

    3. Kosnir tveir varamenn til eins árs í senn.

    4. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.

    5. Kosning fastra nefnda er aðalfundur ákveður.

  10. Önnur mál.

  11. Fundargerð upplesin og fundarslit.

 

8. grein

Atkvæðagreiðslur á aðalfundi félagsins

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála en fellur á jöfnu. Þegar um lagabreytingar er að ræða þarf samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna. Kosningar skulu vera skriflegar ef þess er óskað. Séu atkvæði jöfn við stjórnarkjör skal kosning endurtekin. Verði atkvæði þá enn jöfn skal hlutkesti ráða.

 

9. grein

Kjörgengi og atkvæðisréttur á aðalfundi félagsins

Allir skuldlausir félagsmenn 18 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnarstarfa og atkvæðisrétt á aðalfundi. Málfrelsi og tillögurétt hafa allir félagar.

 

10. grein

Félagsfundir

Aukaaðalfund félagsins má halda ef meirihluti aðalstjórnar álítur þess þörf eða ef ¼ atkvæðisbærra fundarmanna á aðalfundi óska eftir því, enda tilkynni þeir um leið fundarefni það er ræða á. Aukaaðalfundur er lögmætur ef til hans er boðað samkvæmt ákvæðum 6. greinar þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur. Lagabreytingar og stjórnarkosning skulu þó ekki fara fram á aukaaðalfundi.

Almennan félagsfund getur stjórnin boðað þegar þurfa þykir eða 1/5 skuldlausra félagsmanna óska þess skriflega. Skal þá boða til hans á sama hátt og kveðið er á um í 6. grein og getið skal dagskrár í fundarboði. Á almennum félagsfundi er ekki hægt að kjósa stjórn, breyta lögum eða taka ákvörðunum að leggja félagið niður.

 

11. grein

Félagsgjöld

Sérhverjum félagsmanni ber að greiða félagsgjald til félagsins. Aðalfundur ákveður félagsgjöld. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds. Heimilt er að gefa félagsmönnum kost á að gerast ævifélagar. Aðalstjórn ákveður gjald ævifélaga. Greiði félagsmaður ekki félagsgjald sitt næstliðið ár fyrirgerir hann réttindum sínum skv. 9. grein þessara laga. Aðalstjórn metur hverju sinni hvort greiðslufall skuli varða brottrekstri úr félaginu.

 

12. grein

Aðalstjórn

Aðalstjórn skipa fimm menn, formaður sem kjörinn er sérstaklega til eins árs, og tveir meðstjórnendur kjörnir annað hvert ár til tveggja ára í senn. Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum varaformanns, ritara og gjaldkera/meðstjórnanda. Formaður boðar fundi í aðalstjórn þegar hann telur þess þörf eða ef einn stjórnarmaður eða fleiri óska þess. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála í aðalstjórn. Stjórnarfundi skal boða að lágmarki með sólarhrings fyrirvara og eru löglegir ef meirihluti aðalstjórnar er mættur.

 

13. grein

Verkefni aðalstjórnar

Aðalstjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess á milli aðalfunda. Aðalstjórn skipar alla trúnaðarmenn félagsins í nefndir og ráð innan íþróttahreyfingarinnar sem félagið er aðili að. Þá skipar aðalstjórn fulltrúa á öll þing sem félagið á fulltrúa á, aðra en fulltrúa á ársþing sérsambanda ÍSÍ. Aðalstjórn er heimilt að skipa nefndir til ákveðinna verkefna enda starfi þær á vegum aðalstjórnar og á hennar ábyrgð. Heimilt er aðalstjórn að ráða framkvæmdastjóra til að sjá um daglegan rekstur milli funda samkvæmt nánari starfslýsingu.

Allar stærri fjárhagslegar skuldbindingar deildar ber að leggja fyrir aðalstjórn til samþykktar. Aðalstjórn hefur á hverjum tíma rétt til að skoða bókhald og fjárreiður deildar. Í því skyni getur aðalstjórn tilnefnt sérstakan trúnaðarmann til slíkra verka, sem getur komið með fyrirmæli um úrbætur ef þurfa þykir. Með sama hætti getur aðalstjórn gripið inní, stefni starfsemi deildar í óefni af öðrum ástæðum en fjárhagslegum.

 

14. grein

Deildir

Eftirfarandi deildir starfa innan félagsins:

Almenningsíþróttadeild

Blakdeild

Knattspyrnudeild

Körfuknattleiksdeild

Sunddeild

Hver deild skal starfa samkvæmt sérstakri reglugerð sem samþykkt er af aðalfundi deildar og svo á aðalfundi/aukaaðalfundi félagsins. Í íþróttadeildum félagsins er unnið að eflingu þeirra íþróttagreinar sem þar er stunduð. Undir viðkomandi íþróttadeild heyrir öll starfsemi varðandi íþróttagreinina og getur hver deild verið rekin hvort heldur sem er ein eining eða í nokkrum flokkum, sem þá skiptast eftir aldri eða kyni.

Aðalstjórn félagsins ber ábyrgð á rekstri allra deilda, bæði fjárhag og starfsemi þeirra, en deildir eru reknar með aðskilinn fjárhag og kennitölu. Stjórn hverrar deildar skal kosin á aðalfundi deildar en flokksráð getur verið skipuð af stjórnum deilda eða kosin á aðalfundi deildarinnar. Hver deild hafi eina kennitölu eða fleiri.

Deildarstjórn ræður daglegum rekstri deildarinnar. Stefna deildar skal vera í samræmi við stefnu félagsins á hverjum tíma. Hver deild skal halda gerðabók um helstu starfsemi og annað markvert, sem fram fer innan hennar. Stjórn hverrar deildar ber ábyrgð á að ritun fundargerða aðalfunda og stjórnarfunda og skal koma þeim á skrifstofu félagsins til varðveislu.

Hver deild og/eða flokkur hefur tekjur af æfingagjöldum, íþróttakeppnum og þeim fjáröflunum sem hún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn félagsins. Deildarstjórn íþróttadeildar skal leggja fram til samþykktar fjárhagsáætlun fyrir starfsárið til aðalstjórnar. Bókhald deildar skal fært og það varðveitt á skrifstofu félagsins. Hjá hverri deild skal skráð á heimasíðu úrslit kappleikja og annað markvert sem fram fer innan deildarinnar. Í lok hvers starfsárs skal gera yfirlit/úrdrátt um hið markverðasta í starfi deildarinnar, sem síðan skal tekið inn í sameiginlega ársskýrslu félagsins.

Allar nýjar íþróttagreinar sem ekki falla undir þær deildir sem fyrir eru í félaginu skulu hefja starfssemi sína í almenningsíþróttadeild. Komi fram ósk félagsmanna til aðalstjórnar um stofnun nýrrar deildar við félagið skal aðalstjórn leggja slíka beiðni fyrir aðalfund félagsins undir dagskrárliðnum lagabreytingar. Aðalstjórn sem og undirbúningsstjórn viðkomandi deildar halda síðan stofnfund deildarinnar. Með stofnfundi deilda skal fara eins og um aðalfundi væri að ræða.

Einungis er keppt í viðurkenndum greinum samþykktra deilda.

Eignir hverrar deildar teljast sameign félagsins. Verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu vera í vörslu aðalstjórnar. Hætti deild störfum renna eignir hennar til aðalstjórnar. Hefjist starfsemi hennar ekki að nýju innan fimm ára ber að sækja um stofnun að nýju.

 

15. grein

Fjárhagur deilda

Hver deild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn og aðskilinn fjárhag. Allar meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar ber stjórnum deilda að leggja fyrir aðalstjórn til samþykktar. Með meiriháttar skuldbindingum er átt við þær heimildir sem aðalstjórn veitir deildum í 8. grein í reglugerð deilda. Þeir félagsmenn (fulltrúar deilda eða flokka) sem stofna til fjárhagslegra skuldbindinga félagsins án heimildar, eða formlegs samþykkis aðalstjórnar, bera persónulega ábyrgð á greiðslum þeirra.

  1. Stjórnir deilda skulu skila fjárhagsáætlun fyrir 15. nóvember ár hvert til aðalstjórnar. Í áætluninni skal koma fram nákvæmt yfirlit yfir tekjur og gjöld fyrir hvern mánuð næsta starfsárs. Gera skal aðalstjórn nákvæma grein fyrir fjárhagsáætlunum, sem staðfestir þær eða gerir athugasemdir

  2. Deildir, sem skulda um áramót, skulu skila áætlun um niðurgreiðslu skulda með langtíma fjárhagsáætlun.

  3. Aðalstjórn hefur eftirlit með útgjöldum deilda og gætir þess að þau séu í samræmi við fjárhagsáætlun. Til þess skal framkvæmdastjóra og/eða gjaldkera aðalstjórnar veitt heimild til skoðunar á bankaviðskiptum og bókhaldi deilda.

  4. Bókhald allra deilda skal vera aðalstjórn aðgengilegt. Deildir skulu skila af sér öllum reikningum fyrir 7. næsta mánaðar og skal bókhald vera fært og uppgert á samræmdu formi viku síðar. Þannig skal vera hægt að sjá stöðu hverrar deildar svo til í rauntíma auk þess sem staða félagsins er alltaf skýr.

  5. Gjaldkeri aðalstjórnar og kjörnir skoðunarmenn reikninga eru ábyrgir fyrir skoðun á reikningum og uppgjörum allra deilda.

  6. Reikningsár félagsins og deilda þess skal vera almanaksárið.

 

16. grein

Fjáraflanir

Tilkynna skal fjáraflanir til aðalstjórnar áður en þær hefjast. Aðalstjórn heldur skrá yfir allar fjáraflanir á vegum félagsins og leitast við að samræma þær. Sækja skal um viðurkenningu stjórnar fyrir nýrri gerð fjáraflana.

 

17. grein

Æfingagjöld

Æfingagjöld skulu innheimt af deildum. Aðalstjórn skal hafa eftirlit með og samræma álagningu og innheimtu æfingagjaldanna. Veita má afslátt af æfingagjöldum ef systkin æfa sömu grein eða ef einstaklingur er í fleiri en einni grein hjá félaginu.

 

18. grein

Fundir aðalstjórnar með deildum og formönnum þeirra

Aðalstjórn félagsins skal við upphaf hvers keppnistímabils og eigi sjaldnar en árlega halda fund með formönnum deilda félagsins. Þessir fundir skulu vera vettvangur samráðs og samskipta aðalstjórnar og deilda félagsins. Um ályktanir fundarins gildir einfaldur meirihluti.

Fjárskuldbindingar aðalstjórnar utan fjárhagsáætlunar skulu lagðar fram til samþykktar á formannafundi. Jafn atkvæðisréttur, málfrelsi og tillögufrelsi er á formannafundum.

Aðalstjórn félagsins skal halda að lágmarki einn fund á starfstímabilinu með hverri deildarstjórn félagsins þar sem farið er yfir stöðu, réttindi og skyldur deilda og félagsins.

 

19. grein

Félagatal

Aðalstjórn skal halda heildarskrá yfir félagsmenn og iðkendur samkvæmt skrám deilda, sem skal endurskoðuð a.m.k. árlega. Sérhver deild félagsins skal halda nákvæma skrá yfir félagsmenn sína og iðkendur og senda aðalstjórn.

 

20. grein

Viðurkenning, heiðursmerki

Aðalstjórn veitir viðurkenningu fyrir íþróttaárangur eða störf í þágu félagsins eða íþróttahreyfingarinnar skv. sérstakri reglugerð sem samþykkt er á aðalfundi félagsins.

 

21. grein

Viðurlög

Brjóti félagsmaður gegn lögum félagsins eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, eða komi fram með þeim hætti að til álitshnekkis sé fyrir félagið og markmið þess, getur aðalstjórn ákveðið að víkja viðkomandi úr félaginu. Fjórir af fimm stjórnarmönnum aðalstjórnar verða að samþykkja brottvikninguna. Aðalstjórn er skylt að boða hinn brotlega á sinn fund áður en ákvörðun er tekin og gefa honum kost á að skýra mál sitt og koma að andmælum. Skjóta má ákvörðun aðalstjórnar um brottvikningu félagsmanns úr félaginu til næsta aðalfundar félagsins.

 

22. grein

Eignir og félagaslit

Íþróttafélagið Vestri verður ekki lagt niður nema með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi og skal sá dagskrárliður vera skýrt auglýstur í aðalfundarboði. Komi til slita félagsins skal afhenda eigur þess Héraðssambandi Vestfirðinga (HSV) til varðveislu. Ef hliðstætt félag verður stofnað innan Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur innan fimm ára, skulu eignir þess afhentar hinu nýja félagi. Verði ekki af stofnun nýs félags á þessum tíma skulu eignir þessar renna til HSV, sem ráðstafar þeim til uppbyggingar íþróttastarfi á sínu félagssvæði.

 

23. grein

Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi á stofndegi félagsins, 16 janúar 2016.

 

24. grein

Bráðabirgðarákvæði sem gildir á stofnfundi

Á stofnfundi félagsins gildir eftirfarandi bráðabirgðarákvæði við 7. grein um stjórnarkjör: Einnig skal kjósa þrjá aðalmenn í stjórn til eins árs.

  

Reglugerð fyrir íþróttadeild

1. grein

Hlutverk deildar

Í íþróttadeild Vestra er unnið að eflingu þeirrar íþróttagreinar. Undir deildina heyrir öll starfsemi varðandi íþróttagreinina.

 

2. grein

Skipulag deildar

Aðalstjórn félagsins ber ábyrgð á rekstri deildarinnar, bæði fjárhag og starfsemi þeirra, en deildin er rekin með aðskilinn fjárhag og kennitölu. Undir þessari deild skal reka meistaraflokka (sé hann til staðar) aðskilda frá yngri flokkum, með sérstökum flokksstjórnum. Hver flokksstjórn skal skipuð minnst þremur aðilum og tvo til vara. Flokksstjórn skiptir sjálf með sér verkum.

Stjórn íþróttadeildar er kosin á aðalfundi deildar, formaður til eins árs í senn og einn/tveir stjórnarmenn til tveggja ára í senn, minnst þriggja manna stjórn. Íþróttadeild skal rekinn í þremur flokkum með jafnmörgum/einni kennitölu.

Stjórnir flokka eru skipaðir af stjórn deildarinnar eða kosin á aðalfundi deildar.

 

3. grein

Aðalfundir deilda, fundartími, atkvæðisréttur og boðun

Aðalfundir deilda félagsins skulu haldnir fyrir 1. mars ár hvert. Allir skuldlausir félagsmenn deilda hafa atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundum deilda. Til aðalfunda deilda skal boðað með viku fyrirvara með auglýsingu opinberlega og tilkynningu til aðalstjórnar. Aðalfundur deildar er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

 

4. grein

Dagskrá aðalfunda deilda

  1. Fundarsetning.

  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

  3. Formaður deildar gerir grein fyrir starfssemi deildarinnar á liðnu starfsári.

  4. Gjaldkeri deildar leggur fram til samþykktar og gerir grein fyrir reikningum deildarinnar

sem staðfestir hafa verið af kjörnum skoðunarmanni og gjaldkera aðalstjórnar.

Fjárhagsáætlun deildarinnar lögð fram til samþykktar.

  1. Kosningar:

a) Kosinn formaður.

b) Kosinn einn eða tveir aðalmenn til tveggja ára og jafnmargir til vara til eins árs, samtals þriggja/fimm manna stjórn.

c) Kosið í flokksráð, eða stjórn deildar falið að velja í þau.

  1. Önnur mál.

  2. Fundargerð upplesin og fundarslit.

 

5. grein

Atkvæðagreiðslur á aðalfundum deilda

Á aðalfundum deilda ræður meirihluti úrslitum mála. Tillaga fellur á jöfnum atkvæðum.

 

6. grein

Vanræksla á að halda aðalfund deilda

Vanræki deild að halda aðalfund á lögboðnum tíma skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og aðstoða við framkvæmd hans.

 

7. grein

Stjórnir deilda

Stjórnir deilda skulu að lágmarki skipaðar þremur mönnum. Stjórnir deilda skipta með sér verkum, fyrir utan formann. Ávallt skulu vera ritari og gjaldkeri í stjórnum deilda.

 

8. grein

Fjárhagslegar skuldbindingar

Stjórnir deilda skulu gera starfs- og fjárhagsáætlun sem lögð er fyrir aðalstjórn til samþykktar fyrir 15. nóvember ár hvert. Auk þess ber stjórnum deilda að leggja fyrir aðalstjórn til samþykktar, ákvarðanir um allar meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar. Með meiriháttar skuldbindingum er átt við þær sem eru umfram samþykktan ófyrirséðan kostnað deildar í rekstraráætlun. Þeir félagsmenn (fulltrúar deilda) sem stofna til fjárhagslegra skuldbindinga félagsins án samráðs og formlegrar samþykktar aðalstjórnar bera persónulega ábyrgð á greiðslu þeirra gagnvart félaginu, sbr. 15. grein í lögum félagsins.