Fréttir

Íslandsmót 4. flokks á Ísafirði um helgina

Blak | 22.11.2012 Dagana 24. og 25. Nóvember verður önnur umferð Íslandsmótsins í blaki hjá 4. flokki haldin á Ísafirði. Búast má við um 120 krökkum, þjálfurum og fararstjórum á mótið og er þetta í fyrsta sinn sem slíkt mót er haldið á Ísafirði. Frá blakbænum Neskaupstað koma 30 krakkar með flugi og einnig koma lið frá Akureyri, Grundarfirði, höfuðborgarsvæðinu og Hvolsvelli.

Spilað verður frá 8:30-17:30 á laugardaginn og 8:30-11 á sunnudaginn. Frá Skelli taka tvö lið þátt í Íslandsmótinu í 4. flokki. Annað þeirra keppir í deild A-liða pilta og hit í deild B-liða stúlkna. Bæði liðin standa mjög vel eftir fyrstu umferð Íslandsmótsins í september og eru í efstu sætum í sínum deildum. Til viðbótar verða Skellur og Höfrungur með sitt hvort gestaliðið í deild C-liða.

Heimamenn eru hvattir til að koma í Torfnes og horfa á flotta krakka spila blak. Yngri flokkar Skells verða með kaffisölu og því er tilvalið að kíkja við, sjá bestu 12 og 13 ára blakara landsins og fá sér kaffi og með því.
Deila