Fréttir

Jólamót Vestfjarða í krakkablaki velheppnað

Blak | 17.12.2008

Jólamót Vestfjarða fór fram á Þingeyri laugardaginn 13. desember.  Tæplega 60 krakkar frá Þingeyri, Suðureyri og Ísafirði tóku þátt og voru keppendur á aldrinum frá 7 og upp í 16 ára. Mótið heppnaðist einstaklega vel og ótrúlegt hvað krakkarnir eru orðnir duglegir í blaki. Spilað var á stigi 1, 2 og 3.  Á stigum 1 og 2 er boltanum kastað yfir netið en á stigi 2 þarf þó að taka blakslag og grípa til að frelsa liðsfélaga sinn. Á þriðja stigi er spilað venjulegt blak, nema að annar bolti er gripinn og það verða að vera þrjár snertingar hjá hvoru liði.   Elstu krakkarnir á Þingeyri eru komin mjög langt í blakinu og í lok mótsins bauð úrvalslið þeirra í þjálfarana. Þá var spilað krakkablak á 4. stigi sem er venjulegt blak með fjórum leikmönnum í liði á badmintonvelli. Þjálfararnir unnu í þetta sinn, en það er ljóst að ef leikurinn verður endurtekinn að ári gætu úrslitin orðið allt önnur.   Eftir mótið fengu allir úlnliðsband merktu sínu félagi, samlokur, ávexti og smákökur. 
Margir brugðu sér í laugina áður en haldið var heim á leið.  

Deila