Fréttir

Úrvalsdeild karla í blaki: Vestri féll úr leik í undanúrslitum

Blak | 21.04.2023
Úrvalsdeildarlið Vestra ásamt starfsfólki Kerecis, dyggir stuðningsmenn liðsins :)
Úrvalsdeildarlið Vestra ásamt starfsfólki Kerecis, dyggir stuðningsmenn liðsins :)

Úrvalsdeildarlið Vestra er fallið úr leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í blaki eftir tap í tveggja leikja undanúrslitaeinvígi gegn ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum Hamars frá Hveragerði.

Fyrri leikur liðanna fór fram í Hveragerði á mánudaginn var, daginn eftir að tveggja leikja einvígi Vestra og Þróttar Fjarðabyggð um sæti í undanúrslitunum lauk. Þetta var því þriðji stórleikur Vestra á þremur sólarhringum og mögulega var þreyta farin að gera vart við sig hjá liðinu. Hið frábæra lið Hamars gekk á lagið og landaði frekar þægilegum 3-0 sigri.

Liðin mættust svo aftur á Ísafirði á sumardaginn fyrsta og aftur sigruðu Hamarsmenn 3-0. Þær tölur láta þó sigurinn virðast öruggari en hann var í raun, því þetta varð hörku viðureign þar sem allar hrinurnar voru jafnar og tvísýnar. Ein fór í upphækkun alveg upp í 31 stig, en á endanum voru það Hamarsmenn sem höfðu herslumuninn sín megin og tryggðu sér sæti í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins, þar sem þeir munu mæta annað hvort KA eða Aftureldingu.

Vestramenn eru komnir í sumarfrí en geta verið virkilega sáttir við keppnistímabilið því auk þess að komast í undanúrslit Íslandsmótsins fór liðið alla leið í úrslitaleik bikarkeppninnar fyrr í vetur.  Þá varð  ungmennalið Vestra einnig meistari í þriðju deild karla.

Þjálfari Vestra, Juan Escalona hyggst stýra liðinu áfram á næsta tímabili, en hann hefur unnið afar gott starf fyrir félagið undanfarin ár.   Enn á eftir að koma í ljós hverjir úr hópi lykilleikmanna liðsins halda áfram næsta vetur en yngriflokkastarf Vestra er að skila liðinu öflugum hópi ungra leikmanna sem margir eru þegar eru farnir að fá tækifæri með aðalliðinu. Ljóst er að það er mikill hugur í Vestramönnum að blanda sér aftur í baráttu þeirra allra bestu á næsta keppnistímabili.

Deila