Fréttir

BÍ/Bolungarvík - Selfoss

Knattspyrna | 30.01.2011 BÍ/Bolungarvík mætti Selfossi síðastliðinn laugardag í Kórnum, Kópavogi. Selfoss voru nýliðar í Pepsi deildinni síðastliðið sumar en féllu um deild og mæta því okkur í sumar í 1.deildinni. Það vantaði nokkra sterka leikmenn hjá okkur í þessum leik. Atli, Birkir, Andri, Goran og Matti voru ekki með að þessu sinni.

Byrjunarliðið var þannig skipað:
Þórður - Haffi, Sigurgeir, Gunnar, Sigþór - Erlendur leikmaður á reynslu, Sölvi, Alexander Veigar - Óttar, Ásgeir og Jónmundur
Á varamannabekknum voru Nikulás og Erlendur leikmaður á reynslu.

Bæði lið byrjuðu vel og spiluðu ágætan bolta. Selfoss náði þó að skora fyrsta markið eftir klaufalegan varnarleik hjá okkar mönnum. Eftir það komu nokkrar ágætar sóknir þar sem við hefðum átt að jafna leikinn. Þar á meðal Jónmundur einn á móti markmanni. Eftir það komu þrjú mörk í röð frá Selfossi þar sem við vorum meðal annars ekki að dekka nógu vel í föstum leikatriðum. Staðan 4-0 fyrir Selfoss í hálfleik en tölurnar gáfu alls ekki rétta mynd af leiknum.

Í seinni hálfleik kom Nikulás inn á fyrir Óttar og annar leikmaðurinn á reynslu skipti við hinn. Leikurinn hélt áfram að vera jafn og bæði lið skiptust á að sækja. Jónmundur minnkaði muninn fyrir okkur eftir að Sölvi skallaði boltann innfyrir og lagði hann boltann snyrtilega í netið, staðan 4-1. Selfoss bætti við fimmta markinu með langskoti en höfðu ekki verið að ógna mikið fram að því. Óttar og Alxander sluppu báðir í gegnum vörn Selfoss en létu markvörðinn verja frá sér. Það var síðan eftir góða sókn að varnarmaður Selfoss brýtur á Nikulási í teignum og dæmd var vítaspyrna. Nikulás fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Stuttu seinna skallaði Gunnar Már framhjá af markteig og eftir það flautaði dómarinn leikinn af, 5-2 tap staðreynd.

Þetta var ekki slæmur leikur hjá okkar mönnum þó svo að tölurnar gefi annað til kynna. Einbeitingarleysi í vörninni sem ætti að vera auðvelt að laga og svo er hópurinn allur að styrkjast. Selfossliðið var ekki eins sterkt og undirritaður hafði haldið fyrir leikinn. Mögulega vantaði einhverja leikmenn hjá þeim en við höfum verið að mæta betri liðum upp á síðkastið. Næst er leikur við Víking á fimmtudaginn í Fossvogi kl. 18:00 Deila