Fréttir

BÍ/Bolungarvík og ÍR sameinast um kvennaboltann

Knattspyrna | 18.05.2015

BB.is - Sameinaður meistaraflokkur BÍ/Bolungarvíkur og ÍR tekur þátt í 1. deild kvenna í sumar. Hulda Guðmundsdóttir, formaður meistaraflokks kvenna hjá BÍ/Bolungarvík segir að ekki hafi verið annað í stöðunni en að fara í samstarf við ÍR. „Það var annað hvort að hætta með meistaraflokk eða gera þetta og við vildum ekki hætta vegna stelpnanna sem eru að æfa hjá okkur,“ segir Hulda. Víða um land reynist erfitt að halda úti kvennabolta og nefnir Huld að Reykjavíkurliðin séu byrjuð að semeinast um kvennaboltann.

„Við sáum okkur ekki fært að fá til okkar sex erlenda leikmenn sem við hefðum þurft. Við reyndum að fá íslenska leikmenn en það vildi engin koma.“ Hópurinn verður tvískiptur. Hluti leikmanna býr og æfir á Ísafirði og hluti fyrir sunnan. „Þær fara svo suður og æfa og keppa og stelpurnar fyrir sunnan koma svo vestur og æfa með okkur þegar við eigum leiki á Ísafirði,“ segir Hulda.

Hún bætir við að rekstur meistaraflokks kvenna sé erfiður og úrelt kynjahlutverk grasseri í knattspyrnunni. „Við komum víðast að lokuðum dyrum með styrki. Tek sem dæmi að Landsbankinn ætlar að styrkja BÍ um eina milljón. Meistaraflokkur karla fær 750 þúsund krónur og við eigum að fá 150 þúsund eins og unglingastarfið og mér finnst þetta alveg fáránlegt,“ segir Hulda.

Fyrsti leikur liðisins er við Hauka eftir viku og verður leikið í Hafnarfirði.

Sjá frétt á BB.is

 

Deila