Fréttir

Góður sigur gegn Stjörnunni

Knattspyrna | 14.03.2011 Stjarnan 1-3 BÍ/Bolungarvík
0-1 Andri Rúnar Bjarnason
0-2 Colin Marshall
1-2 Baldvin Sturluson (víti)
1-3 Óttar Kristinn Bjarnason

BÍ/Bolungarvík mætti Stjörnunni í þriðju umferð Lengjubikarsins síðastliðinn laugardag. Leikurinn fór fram í Reykjaneshöllinni. Áður höfðum við sigrað Hauka en tapað síðasta leik gegn Fylki 0-1. Stjarnan tapaði einnig gegn ÍR, 4-3 í umferðinni á undan. Í lið okkar vantaði Birki, Goran og Zoran ásamt því að 1-2 leikmenn á bekknum hafa verið að jafna sig af meiðslum.

Byrjunarliðið var þannig skipað:
Þórður - Sigurgeir, Atli, Ondo, Sigþór - Haffi, Gunnar, Colin, Sölvi, Alexander - Andri
Á varamannabekknum voru Óttar, Matti, Nikulás, Ásgeir og Jónmundur

Leikurinn byrjaði eins og flestir í þessari keppni, við stoppum á miðju og leyfum andstæðingnum að vera með boltann á sínum eigin vallarhelmingi en erum síðan fljótir að loka öllum leiðum þegar nær kemur. Vörnin okkar verður sterkari með hverjum leiknum og í leiknum á laugardaginn var nánast ekkert sem við áttum í vandræðum með í opnu spili. Eins og áður þegar við unnum boltann að þá áttum við nokkrar vel útfærðar skyndisóknir sem sköpuðu okkur færi. Ásamt því um miðbik hálfleiksins að menn voru orðnir rólegir á boltanum og héldum honum ágætlega innan liðsins. Fyrsta markið kom þegar flott skyndisókn endar hjá Gunnari í teignum sem kemur boltanum fyrir markið þar sem Andri er mættur einn og óvaldaður og skorar framhjá markverði Stjörnunnar. Stuttu seinna vinnur Colin boltann á miðjunni og fer sjálfur alla leið upp að vítateig Stjörnunnar þar sem hann tekur stuttan þríhyrning við Gunnar og er þá kominn í gegn en á þá enn mikið eftir. Boltinn er aðeins skoppandi fyrir framan hann og í staðinn fyrir að hamra á markið þá "chippar" hann boltanum stórkostlega yfir markvörðinn og í markið. Staðan 2-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Jónmundur kom inn á fyrir Sölva í hálfleik og stuttu seinna kom Óttar inn á fyrir Colin. Sá seinni var mjög svipaður þeim fyrri. Við komumst í margar álitlegar stöður sem við erum klaufar að nýta ekki betur. Stjarnan reyndu hvað þeir gátu og uppskáru ódýrt víti sem dæmt var á Haffa í teignum. Þeir minnka muninn í 2-1. Eftir það fengu þeir sitt eina færi í leiknum þegar Þórður varði skot frá markteig. Stjarnan fækkuðu í vörninni og reyndu allt til að jafna leikinn. Andri sleppur þá í gegn en fer illa með góða stöðu ásamt því að línuvörðurinn dæmir mark af okkur eftir fast leikatriði. Það var síðan í lokin þegar Jónmundur sleppur í gegn og rennir boltanum fyrir markið þar sem Óttar klárar færið vel eftir að sendingin hafði komið fyrir aftan hann. Frábær 3-1 sigur staðreynd á úrvalsdeildarliði Stjörnunnar.

Það spiluðu allir vel í dag. Ondo og Atli voru stekir í miðverðinum, Þórður öruggur í markinu, Haffi og Gunnar góðir í varnarleiknum á miðjunni, Alexander og Colin stórskemmtilegir á miðjunni. Menn mega þó ekki láta blekkjast á einu ágætum leik. Ef menn halda þessari vinnslu áfram í leikjunum að þá gæti okkur gengið ágætlega í sumar en það er skammt stórra höggva á milli. Næsti leikur er á laugardaginn við Grindavík í Reykjaneshöllinni. Deila