Fréttir

Hin hliðin – Það er hreinlega komið að þessu

Knattspyrna | 03.04.2021
Mynd: Ingvar Jakobsson
Mynd: Ingvar Jakobsson

Í ljósi dapurlegrar umræðu síðustu vikna/mánaða/ára um uppbyggingu knattspyrnhúss á Tornesi, er okkur ekki lengur til setunnar boðið. Hin hliðin þarf líka að heyrast, en háværu neikvæðu raddirnar ætla ekki að gefa tommu eftir hvað varðar skoðanir á þessari uppbyggingu. Allt gott og blessað með það, allir hafa rétt á sinni skoðun, en það er mikilvægt að umræðan sé málefnaleg. Það virðist engu máli skipta hvort að þessi uppbygging kosti 100 milljónir eða 700 milljónir, þeir sem eru “á móti” eru hreinlega bara á móti.

Íþróttahreyfingin er ein stærsta hreyfing á Íslandi. Tölur frá árinu 2007 gefa til kynna að meira en þriðji hver íslendingur er félagi í íþróttafélagi. Íþróttahreyfingin er stór partur af okkar litla samfélagi, sama hvaða grein það er. Við höfum horft á íþróttalífið blómstra hér síðustu ár með ýmsum hætti og auknu á framboði. Þrátt fyrir þessa jákvæðu aukningu hefur iðkendum ekki fækkað í öðrum greinum, þvert á móti, því síðustu mánuði og ár hefur iðkendum t.d. í knattspyrnu fjölgað þó nokkuð. Allt saman er þetta jákvætt, þetta er jákvætt fyrir samfélagið í heild. Íþróttir hafa nefninlega forvarnargildi t.d. gagnvart sjúkdómum og vímuefnum. Svo má ekki gleyma því heldur að þær stuðla að bættri heilsu bæði líkamlega og andlega.

Við horfum, að sjálfsögðu, á þessa miklu aukningu með jákvæðum hug, en það er líka hængur á. Knattspyrnudeildin nýtir t.d. gamla íþróttahúsið við Austurveg, en vegna mikillar aukningar iðkenda er það húsnæði einfaldlega orðið of lítið. Við vitum flest að það eru margar íþróttagreinar sem keppast við að fá tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi og oftar en ekki er salnum skipt niður í tvö til þrjú bil. Í dag er staðan sú að þegar slík skipting er að þá er varla pláss fyrir þann fjölda sem mætir til æfinga. Þetta á líklega ekki eingöngu við knattspyrnuna því að það er aukning í fleiri íþróttagreinum. Ef að ein deild getur farið að æfa á öðrum stað, þá rýmkar til í húsinu fyrir allar hinar greinarnar líka. Svo að ný bygging við Torfnes hefur jákvæð áhrif á flestar íþróttagreinar svæðisins.

Við erum búin að bíða, bíða lengi og bíða af okkur allskonar pælingar, umræður, undirbúning og svo lengi mætti telja, en nú er hreinlega komið að þessu. Við vitum það vel að við verðum seint öll sammála um það hvaða uppbygging á svæðinu er næst í röðinni, en að vera á móti til að vera á móti er ekki málefnalegt og engum til frama. Það var þörf fyrir þetta hús fyrir 10 árum síðan, það er enn meiri þörf fyrir það í dag. Við viljum halda í íþróttafólkið okkar, við viljum uppbyggingu og við viljum horfa fram á veginn. Það hefur nefninlega ekkert upp á sig að vera að velta því fyrir sér hvernig þetta var hér áður, tímarnir hafa breyst og það er eðlilegt að mennirnir breytist með.

“Hin hliðin” fangar því þeim áformum bæjarins um uppbyggingu á Torfnesi. Við fögnum því að loksins hefur það tímabil komið þar sem þetta verkefni aldrei sofnað, heldur hefur verið unnið að því að kappi, að halda þessu verkefni á lofti. Það er komið að þessu, við trúum því og við fögnum því.

 

Samúel Samúelsson formaður meistaraflokks knattspyrnudeildar Vestra

Svavar Þór Guðmundsson formaður knattspyrnudeildar Vestra

Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg formaður yngri flokka knattspyrnudeildar Vestra

Deila