Fréttir

Hvar er hann nú?

Knattspyrna | 10.05.2010

"Hvar er hann nú" er nýr liður á bibol.is þar sem fjallað verður um fyrrum leikmenn BÍ/Bolungarvíkur og hvar þeir eru staddir í heiminum í dag. Leikmaðurinn sem fjallað verður um í dag er án efa einn sá besti sem hefur spilað með sameiginlegu liði Ísfirðinga og Bolvíkinga, þetta er að sjálfsögðu engin annar en markvörðurinn Ljubo Kovacevic.

Ljubo Kovacevic(Mynd 1) fæddist í Serbíu þann 8.september 1978 í smáborginni Sombor. Hann hóf að æfa knattspyrnu 7 ára gamall en þó sem útileikmaður. Hann fór ekki í markið fyrr en um 12 ára aldur. Hann æfði með liði í hverfinu sínu áður en hann fluttist til Belgrad 16 ára gamall til að ganga í menntaskóla. Hann fór á reynslu hjá Red Star og heillaði unglingaþjálfarana þar upp úr skónum. Hann náði aldrei að leika fyrir Rauðu Stjörnuna en komst á bekkinn eitt tímabil en fór svo á flakk milli liði í fyrstu deildinni. Árið 2003 fór hann á reynslu hjá liðum í Austuríki og Þýskalandi sem endaði með því að árið 2004 var hann kominn á mála hjá Herthu Berlin, en var þó aðeins þriðji í röðinni þar. Það er síðan sumarið 2006 sem Ljubo gengur til liðs við hið nýja félag BÍ/Bolungarvík.

Eins og flestir vita sem spilað hafa hinn guðdómlega leik Championship Manager 01/02 þá lék Ljubo með gríska liðinu AOAN árið 2001(Mynd 2). Í leiknum staldrar hann ekki lengi hjá því liði og er undantekningalaust keyptur af einhverju stórliði í Evrópu og verður með betri markvörðum heimsins í þeim leik. Hann er meðal annars skráður með 17 í handling en undirritaður kýs frekar að kaupa hinn óþekkta Portúgala Hugo Phineiro.

Leikmenn BÍ/Bol voru ekki lengi að taka eftir því að þarna var á ferðinni mögulega besti markvörðurinn sem spilaði á Íslandi þetta tímabil. Það kom síðan allt í ljós á skotæfingum þegar Ljubo var að verja um 90% skota sem komu á markið. Fyrsta skotæfingin tók 45.mínútur því engin náði að setja 5 mörk á kappann og var hún því stöðvuð án þess að einhver næði markmiðinu. Kristófer Reynisson æfði þá með liðinu og í einni skotæfingunni skaut hann að marki og Ljubo kastar sér á boltann og grípur. Það sem fylgdi síðan á eftir var annar takkarskórinn hans Kristófers sem hafði losnað af honum í skotinu og hafnaði beint á hausnum á Ljubo. Menn hristu að sjálfsögðu bara hausinn og veltu fyrir sér hvort Kristófer kynni ekki að reima skó og báðu hann vinsamlegast að ofreyna sig ekki við þá iðju. Ljubo henti bara skónum tilbaka eins og sannur fagmaður og hélt áfram að halda hreinu.

Í dag leikur Ljubo með liðinu FK Renova í efstu deild í Makedóníu. Á seinasta tímabili lentu þeir í þriðja sæti sem gaf sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar. Þar mættu þeir Dinamo Minsk frá Hvíta Rússlandi og duttu út samanlagt 3-2. FK Renovo er staðsett í borginni Tetovo í norðvestur hluta Makedóníu. Þetta er um 80.þúsund manna borg og státar af hæstu glæpatíðini allra borga í Makedóníu þar sem höfuðborgin Skopje vermir annað sætið.

bibol.is þakkar Ljubo samstarfsviljan við gerð þessar fréttar og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.

Deila