Barna og unglingaráð BÍ/Bolungarvík hefur mikinn áhuga á að auka hlut stúlkna hjá félaginu. Á síðasta ári héldum við sérstakan stelpudag og mættu til okkar tvær landsliðskonur sem töluðu við stelpurnar og voru með á æfingu, stefnt er að endurtaka það í vetur.
Hjá félaginu er lögð mikil áhersla á jafnan aðgang kynjanna að fjölda æfinga og faglegri þjálfun. Félagið hefur á að skipa flotta hópa af stúlkum sem eru duglegar að æfa, en betur má ef duga skal og viljum við bæta enn í og fá fleiri stelpur í starfið. Fótbolti og íþróttir eru nefnilega ekki bara spurning um keppni og verðlaun því íþróttir hafa samkvæmt rannsóknum mikið forvarnargildi og einnig skiptir félagsskapurinn miklu máli.
BÍ/Bolungarvík leggur jafnmikla áherslu á gleði og samveru iðkenda sem og æfingar og keppni. Margir kynnast sínum bestu vinum í gegnum íþróttir. Í vetur munum við breyta út af þeirri venju að hafa tvo yngstu flokka blandaða kynjum og bjóðum upp á sér æfingu fyrir stelpur í 8.flokki (2010-2011) og einnig verða sér stelpuæfingar fyrir yngstu bekki grunnskólans (2006-2009). Með þessu teljum við bæði einfaldara og þægilegra fyrir stelpur að byrja í fótbolta.
Atli Freyr Rúnarsson íþróttafræðingur sér um þjálfun 3.-5. flokks. Atli hefur áralanga reynslu af þjálfun og hefur tekið mörg þjálfunarstig hjá KSÍ.
Hjá yngri flokkunum 6.-.8.flokks mun Hekla Pálmadóttir þjálfa. Við vorum svo heppin að fá Heklu til Ísafjarðar, hún hefur áralanga reynslu sem knattspyrnukona og tekið mörg þjálfunarstig hjá KSÍ. Hekla þjálfaði meistaraflokk BÍ/Bolungarvíkur á síðasta ári og kemur nú til okkar í yngriflokkastarfið.
Hekla hefur mikinn áhuga á að auka hlut stúlkna í fótbolta hér á Ísafirði og vonast svo sannarlega til að hitta sem flestar stelpur á æfingum í vetur.
Stelpuæfingar í 8.flokki eru á mánudögum kl 16:40 í íþróttahúsinu Torfnesi. Stelpuæfingar fyrir 1.-4. bekk í grunnskóla eru á Ísafirði á sunnudögum kl 10 í íþróttahúsinu Torfnesi og í Bolungarvík á miðvikudögum kl 16. Vonandi sjáum við fullt af flottum stelpum mæta til að prófa. Hópana má finna á facebooksíðunum 8.flokkur BÍ/Bolungarvík og Stelpuæfingar 6.fl og 7.fl BÍ/Bolungarvík.
Deila