Fréttir

Auðveldur sigur gegn Hrunamönnum.

Körfubolti | 17.01.2010
Igor átti góðan leik á móti Hrunamönnum
Igor átti góðan leik á móti Hrunamönnum
Það var aðeins á smá kafla í fyrri hálfleik sem Hrunamenn stóðu í leikmönnum KFÍ. Þá börðust þeir vel og voru að sækja vel að körfunni og náðu meðal annars að snúa 16-6 í 19-16. En Adam var ekki lengi á Jakanum og greinilegt að Jakinn hafi reynst of kaldur ef marka má bæði vítanýtingu og tapaða bolta drengjanna frá Flúðum og vilja þeir eflaust gleyma þessum leik sem fyrst. Vítanýting gestanna var 35% (6/17) og tapaðir boltar 31, en þess má þó geta að góð vörn KFÍ þröngvaði Hrunamenn ítrekað til að kasta boltanum frá sér.

Það er greinilegt að lið KFÍ er að slípast saman og Igor og Denis að falla vel inn í hópinn sem hefur verið kallaður ,,Útlendingahersveitin" af gárungunum. Það má vel vera að menn sem spila fyrir KFÍ séu frá nokkrum mismunandi löndum, en þeir eiga þó ýmislegt sameiginlegt og eitt af því helsta er að vilja spila körfubolta og þá er tilgangnum náð. Þessir drengir eru mjög velkomnir í Ísafjarðarbæ og það eitt að húsið er þéttsetið af áhorfendum segir allt sem segja þarf.

Það var virkilega gaman af leiknum í kvöld og var stemningin mögnuð. Margt flott sást frá okkar strákum en allir fengu að spila og skoruðu þeir allir í þokkabót. Erfitt er að segja hver bar af því þessi sigur var heildarinnar. Gaman var þó að sjá til Denis sem setti fimm af átta þristum sínum og var með 21 stig á sautján mínútum.

Craig fékk loksins smá frið til að annast aðra og þótt hann skoraði aðeins 9 stig í leiknum þá var hann með 12 stoðsendingar og 7 stolna bolta á tuttugu og átta mínútum.

Igor var frábær og er að lesa leikinn vel. Átti magnaða troslu í ,,umferð", 4 varin skot, 10 fráköst og 16 stig. Sem sagt mjög góður leikur.

Darco var að vanda fastur fyrir í vörn og hélt mönnyum við efnið. Hann var með 7 fráköst og 18 stig. Þórir og Hjalti voru góðir, en báðir hafa verið meiddir og að stíga upp úr flensu. Pance er lasinn og hefði átt að hvíla í kvöld en þrjóskan dreif hann áfram og kveikti þeir í yngri strákunum sem stigu allir vel upp í kvöld.

Danni kom inn í leikinn og náði heldur betur að koma áhorfendum í gang með baráttu sinni og leikgleði. Hann setti góðan þrist og var með 2 stolna bilta á 13 mínútum og leysti Craig vel af hólmi.

Florijan var með 7 fráköst og 9 stig, Nonni kom ,,ákafur" af bekknum og náði sér í 2 villur á fyrstu 4 sekúndunum sem hann spilaði, en bætti fyrir það með 4 stigum eftir því sem á leið og barðist eins og ljón.

Leó Sigurðar var frábær og á þeim 5 mínútum sem hann spilaði tók hann 2 fráköst og átti tilþrif dagsins þegar hann blokkaði þriggja stiga skot Hrunamanna í blá restina út úr húsinu!"

Gummi kom inn setti 2 stig og tók 2 fráköst.

Hjá gestunum var Atli góður með 20 stig og 9 fráköst. Hjálmur komst einnig vel frá sínu, 14 stig og 8 fráköst. Mate Dalmay var með 12 stig en 11 tapaða bolta, Bogi var með 8 stig, Sigurður með 6 stig og aðrir gerðu minna.

Sem sagt fínn sigur liðsheildar KFÍ og Hrunamenn fara heim og læra af þessu. Þeir eru með lið sem getur mikið mun betur en þetta og lentu einfaldlega ofjörlum sínum í kvöld.

Áfram KFÍ

Tölfræði leiksins
Deila