Fréttir

Drengjaflokkur tapaði heima gegn Snæfell/Skallagrímur

Körfubolti | 29.01.2010
Þetta er að koma, hænuskref....
Þetta er að koma, hænuskref....
Drengjaflokkur KFÍ tók á móti liði Snæfells/Skallagríms í gærkvöld og tapaði leiknum 73-82. Strákarnir stóðu sig vel í leiknum lengstum, en áttu það til að drippla of mikið og taka skot sem hefðu að ósekju mátt vera nær körfunni. Það er þó greinilegt að lið KFÍ hefur lært mikið í vetur og fer leikur þess batnandi. Þó er einstaklingframtakið of áberandi enn og meira þarf að gera til þess að láta leikinn flæða meira.

En lið Snæfells/Skallagríms er sterkt og eru þar innanborðs stórir sterkir drengir sem eru mikil efni og unnu verðskuldaðan sigur. Það er þó eitt sem ber að nefna. Það er nöldrið í þjálfara þeirra sífellt á meðan leik stendur. Þetta eru ekki skilaboðin sem á að senda drengjunum. Þeir taka þjálfarann sem fyrirmynd og sem slík ber honum að halda sig innan ákveðinna marka velsæmis.

Það var rætt fyrr í vetur um hve erfitt er að fá menn til að dæma leiki vegna áreitis frá þjálfurum. Þetta er einmitt skólabókardæmi um slíkt og vonum við að þessu linni. Við eigum einnig til að detta í sama gír, en reynum að kenna okkar þjálfurum betra. Saman getum við tekið á þessu vandamáli og sýnt að þetta er leikur í körfuknattleik, en ekki ræðukeppni. Og það eru fáir eftir sem nenna að gefa sig í dómgæsluna, ef það fá það eitt að launum að lenda í rifrildi og leiðindum. Við verðum að taka okkur á þarna. Deila