Fréttir

Flottur sigur á Fjölni

Körfubolti | 28.10.2017
Sigrinum á Fjölni fagnað.
Sigrinum á Fjölni fagnað.

Jakinn er enn ósigrað heimavígi eftir sigur Vestra á Fjölni í gærkvöldi 93-74. Með sigrinum situr Vestri í þriðja sæti deildarinnar með 8 stig líkt og Skallagrímur, sem vermir efsta sætið, og Breiðablik sem situr í því þriðja.

Leikurinn var jafn framan af en Vestramenn náðu smátt og smátt tökum á leiknum. Nemanja sýndi mátt sinn og megin inn í teig og Nebojsa stýrði leiknum af öryggi. Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður fékk Nemanja sína aðra villu og fékk því hvíld. Nýr leikmaður liðsins Andre Cornelius kom í hans stað og átti frábæra innkomu. Hraði og snerpa hans splundraði vörn Fjölnismanna hvað eftir annað. Í byrjun seinni hálfleiks komu gestirnir svo sterkir til baka og náðu að saxa forskot Vestra niður í aðeins 5 stig í stöðunni 67-62. Þótt áhlaup gestanna væri gott dugði það ekki til og Vestramenn settu höfuðið undir sig og kláruðu leikinn af öryggi í fjórða leikhluta.

Þetta var sannkallaður liðssigur eins og sést best á því hve vel stigaskorið dreifðist en fimm leikmenn Vestra voru með yfir 10 stig. Líkt og áður í vetur var Nemanja Knezevic besti maður vallarinns. Enn á ný skilaði hann tröllatvennu með 24 stig, 18 fráköst og 3 stoðsendingar á rétt rúmum 20 mínútum. Andre Cornelius átti, eins og fyrr segir, frábæra innkomu skoraði 19 stig og stal 3 boltum. Ingimar Aron átti einnig góðan leik með 16 stig og 4 stolna bolta sem segir sitt um kröftugan varnarleik hans. Fyrirliðinn Nökkvi Harðarson var drjúgur líkt og svo oft með 14 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar. Nebojsa var óheppinn í skotum og hitti illa en stýrði leik liðsins af öryggi, skoraði 12 stig og gaf 11 stoðsendingar. Adam Smári skoraði 6 stig og tók 8 fráköst og Gunnlaugur skoraði 2 stig. Þess má svo geta að Vestramenn söknuðu Björns Ásgeirs sem er meiddur en á góðum batavegi.

Hjá gestunum var Sigvaldi Eggertsson stigahæstur með 21 stig og Samuel Prescott með 18.

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.

Hér að neðan eru svo viðtöl við þjálfara liðanna eftir leik sem Þormóður Logi Björnsson hjá Jakanum TV tók.

 

Deila