Fréttir

Gnúpverjar urðu undir mulningsvélinni

Körfubolti | 29.11.2015
Florijan er með 36,5 stig per leik í 3. deildinni.
Florijan er með 36,5 stig per leik í 3. deildinni.

Vestfirska mulningsvélin, betur þekkt sem KFÍ-b, hélt áfram sigurgöngu sinni í 3. deild karla í gær þegar liðið bar sigurorð af Gnúpverjum 88-79.

 

B-liðið hafði töggl og haldir í leiknum frá byrjun og náðu forustunni strax á upphafssekúndunum, með sjaldgæfu sniðskoti frá Pance Ilievski, og voru yfir allan tímann eftir það. Mest varð forustan 24 stig í byrjun fjórða leikhluta áður en Gnúpverjar náðu að girða í brók. Upphófst þá mikið áhlaup hjá gestunum sem skoruðu 22 stig á móti 5 stigum heimamanna með þeim afleiðingum að forustan var skyndilega einungis orðin 7 stig, 79-72. Lengra komust þeir þó ekki því Florijan Jovanov setti í fluggírinn og kláraði leikinn fyrir B-liðsmenn en hann skoraði 16 síðustu stig þeirra í leiknum.

 

B-liðið hélt uppi þeirri viðtekinni venju sinni að tjalda fram að minnsta kosti einni nýrri gamalli og íturvaxinni stjörnu í hverjum leik en í þetta sinn var það Pance Ilievski sem hefur undanfarna mánuði verið í stífum æfingarbúðum í Makedóníu. Hann stóð svo sannarlega fyrir sínu og setti niður 6 þrista og samtals 23 stig í leiknum.

 

Florijan Jovanov var klárlega maður leiksins og áttu Gnúpverjar fá svör við honum undir körfunni. Endaði hann með 36 stig í leiknum og var allt í öllu í fjórða leikhluta þegar samherjar hans komust fæstir yfir miðjulínuna sökum andnauðar og almenns nennuleysis.

 

B-liðið er sem fyrr segir efst í deildinni með 10 stig og er næsti leikur þeirra á móti Laugdælum á Ísafirði 12. desember næstkomandi.

 

Stigaskor KFÍ
Florijan 36, Pance 23, Birgir Örn 14, Stígur 6, Haukur 4, Shiran 3, Sturla 2

Deila