Fréttir

Góður sigur á Ármanni

Körfubolti | 20.01.2017
Nebojsa var stigahæstur í liði Vestra í kvöld með 22 stig.
Nebojsa var stigahæstur í liði Vestra í kvöld með 22 stig.

Í kvöld lögðu Vestramenn Ármenninga í 1. deild karla í körfubolta með 98 stigum gegn 81. Leikurinn var sá fyrsti hjá Vestra eftir óvenju langt jólafrí en rúmur mánuður er frá því liðið lék síðast í deildinni.  Með þessum fjórða sigri í röð komst Vestri upp í sjötta sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Hamar sem situr í fimmta sætinu vegna betri stöðu í innbyrðist leikjum.

Ármenningar, sem ekki hafa náð að vinna leik í deildinni það sem af er, mættu með aðeins sex leikmenn. Mögulega hafa Vestramenn því talið sig eiga náðugt kvöld í vændum en raunin varð önnur.

Hinir fáliðuðu Ármenningar gáfu ekkert eftir. Þeir hittu vel, sérstaklega framanaf, og börðust allan leikinn. Þótt Vestramenn hafi haft undirtökin megnið af leiknum hleyptu Ármenningar þeim því aldrei langt frá sér eins og lokatölur leiksins bera með sér.

Varnarleikur Vestra var ryðgaður, menn voru seinir og hleyptu ólseigum Ármenningum oft og tíðum allt of auðveldlega framhjá sér. Vonandi má skrifa þennan slaka varnarleik á hve langt er síðan leikmenn Vestra hafa spilað því nú tekur alvaran við með harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Sóknarleikur liðsins var þó sem betur fer til fyrirmyndar, boltinn gekk vel á milli manna og „auka sendingin“ skilaði oft auðveldum körfum. Einnig var mjög ánægulegt að sjá hve vel stigaskorun dreifðist á milli leikmanna Vestra og ættu því allir að vera búnir að hrista úr sér „pásu hrollinn.“

Góður sigur og kærkomin stig komin í hús. Strákarnir fá þó ekki langa pásu á milli leikja því liðið mætir Val á Hlíðarenda á sunnudaginn kemur. Auk þess mætast unglingaflokkar Vestra og Vals á sama stað á morgun.

Nebojsa Knezevic var stigahæstur í liði Vestra með 22 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar. Næstur kom Yima Chia-Kur með 18 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Adam Smári var með 14 stig og 3 fráköst, Magnús Breki með 11 stig og 4 fráköst, Hinrik með 11 stig, Nökkvi Harðarson var með 7 stig og 12 fráköst, Gunnlaugur með 7 stig og Björgvin og Daníel með 4 stig hvor.

Hjá Gestunum var Magnús Ingi með 25 stig, Arnþór með 24, Guðni Páll með 16, Þorsteinn með 10 og Þorleifur með 6.

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.

Deila