Fréttir

Háspennuleikur gegn Blikum

Körfubolti | 21.11.2015
Það var gaman að sjá minnibolta krakkana leiða leikmenn KFÍ inn á völlinn á leiknum.
Það var gaman að sjá minnibolta krakkana leiða leikmenn KFÍ inn á völlinn á leiknum.
1 af 3

Það var góð stemmning á Jakanum fyrir leik KFÍ og Breiðabliks í gærkvöldi. Stúkan þéttsetin og sú skemmtilega nýbreytni tekin upp að yngri iðkendur, að þessu sinni minniboltakrakkar, leiddu leikmenn KFÍ inn á völlinn. Leikurinn var líka bráðfjörugur og spennandi allt fram á lokamínúturnar. En á þessum lokamínútum reyndust Blikar bæði sterkari og skynsamari og höfðu því sigur 85-91.

 

KFÍ hóf leikinn af miklum krafti og komst í 8-0 en þá náðu Blikar vopnum sínum og skoruðu 11 stig í röð. Upp úr þessu var leikurinn í járnum og liðin skiptust á að leiða. Í hálfleik leiddi KFÍ með 44 stigu gegn 37. Í síðari hálfleik var leikurinn áfram mjög jafn. Liðin skiptust á að leiða með örfáum stigum. En eins og fyrr segir voru Blikar bæði sterkari og skynsamari á lokamínútunum sem skilaði þeim sigri.

 

Segja má að KFÍ hafi tapað leiknum á gloppóttum varnarleik, fráköstum og lítilli ógnun inn í teyg. Blikar tóku samtals 52 fráköst, þar af 20 sóknarfráköst, á móti 37 heildar fráköstum KFÍ. KFÍ skoraði aðeins 8 stig inn í teig á móti 18 stigum Blika.

 

Hjá KFÍ var Kjartan Helgi stighæstur með 22 stig og 4 fráköst. Næstur kom Christopher Andersson með 21 stig 11 fráköst 3 stolna bolta. Hákon Ari Halldórsson átti flotta innkomu í leikinn og setti m.a. tvo þrista í röð en hann skoraði 14 stig og gaf 4 stoðsendingar. Nebojsa átti einnig fína innkomu í leikinn, skoraði 12 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Daníel Þór Midgley skoraði 10 stig og tók 5 fráköst. Gunnlaugur Gunnlaugsson og Jóhann Jakob Friðriksson skoruðu sitthvorr 3 stigin.

 

Besti maður vallarins var Snjólfur Björnsson, leikmaður Blika en hann var með tvöfalda þrennu, skoraði 15 stig, tók 12 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Stigahæstur hjá Blikum var hinsvegar Ragnar Jósef Ragnarsson sem skoraði 21 stig. Þröstur Kristinsson skoraði 12 stig og tók 13 fráköst. Davíð Guðmundsson skoraði 11 stig, Sveinbjörn Jóhannesson skoraði 10 stig, Halldór Halldrósson 9, Breki gylfason 8 og Matthías Örn Karelsson 5.

 

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.

 

Á vefnum Sportmyndir.com má svo sjá skemmtilega myndasyrpu úr leiknum.

Deila