Á dögunum skrifaði hópur ungra og efnilegra leikmanna undir samning við Körfuknattleiksdeild Vestra. Þetta eru þær Hera Magnea Kristjánsdóttir, Gréta Hjaltadóttir, Lisbeth Inga Kristófersdóttir, Sara Emily Newman, Snæfríður Lillý Árnadóttir og Sigrún Camilla Halldórsdóttir.
Þær Hera, Gréta, Sara og Snæfríður voru allar í liðinu í fyrra og Sigrún Camilla kom inn í hópinn á miðjum vetri en allar koma þær upp úr yngri flokkum Vestra. Lisbeth Inga kemur úr Skallagrími og stundar nám á afreksbraut Menntaskólans á Ísafirði.
Stelpurnar spila sinn fyrsta leik í 1. deild kvenna á laugardaginn kemur á Akranesi gegn nýliðum Aþenu.
Hera Magnea fædd 2003 og hefur leikið upp alla yngri flokka hjá Vestra. Hún leikur stöðu miðherja og var í byrjunarliði Vestra alla 18 leiki liðsins á síðasta tímabili.
Gréta er fædd árið 2004 og kemur upp úr yngri flokka starfi Vestra. Hún leikur stöður bakvarðar og framherja og var í burðarhlutverki í liðinu og lék alla 18 leiki liðsins. Gréta hefur átt sæti í U16 landsliði Íslands og var kjörinn efnilegasti íþróttmaður Ísafjarðarbæjar árið 2020.
Sara Emily er fædd árið 2003 og kemur einnig upp úr yngri flokkum Vestra. Sara leikur stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar. Hún var næst stigahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili og burðarás í liðinu.
Lisbeth Inga er fædd árið 2005 og leikur stöðu bakvarðar og framherja. Hún er uppalinn hjá Reykdælum og Skallagrími þar sem hún steig sín fyrstu skref með meistaraflokki í úrvalsdeild tímabilin 2019-2020 og 2020-2021.
Snæfríður Lillý er fædd árið 2004 og kemur upp úr yngri flokkum Vestra. Hún leikur stöðu framherja og var einn af lykilleikmönnum liðsins á stíðasta tímabili.
Sigrún Camilla er bakvörður, fædd árið 2006. Hún kemur upp úr yngriflokkum Vestra og kom inn í æfingahóp meistaraflokks á seinnihluta síðasta tímabils. Hún lék sína fyrstu meistaraflokksleiki aðeins 14 ára gömul í apríl á þessu ári.
Deila