Fréttir

KFÍ tekur á móti Þórsurum

Körfubolti | 15.10.2015
Jóhann Jakob í baráttunni í leik gegn ÍR á undirbúningstímabilinu. Ljósmynd: Bára Dröfn / Karfan.is
Jóhann Jakob í baráttunni í leik gegn ÍR á undirbúningstímabilinu. Ljósmynd: Bára Dröfn / Karfan.is

KFÍ mætir Þór frá Akureyri í fyrsta leiknum í deildarkeppninni hér heima föstudaginn 16. október kl. 19:15 á Torfnesi (Jakanum). Við hvetjum alla til að mæta og styðja við bakið KFÍ, sem er að mestu leyti skipað ungum heimamönnum.

 

Miðaverð á leikinn er aðeins 1.000 krónur. Kveikt verður undir Muurikka pönnunni fyrir leik og hamborgarar steiktir í gríð og erg svo áhorfendur þurfa ekki að hafa áhyggjur kvöldmatarstússi.

 

Þórsarar tefla fram gríðarlega sterku liði og hafa styrkt hópinn sinn verulega frá því í vor bæði með leikmönnum úr úrvalsdeildinni og tveimur bandarískum leikmönnum (öðrum á þriggja ára reglunni). Þá réðu þeir einnig fyrir tímabilið þungaviktarþjálfarann Benedikt Guðmundsson sem áður þjálfaði Þór Þorlákshöfn og KR.

 

Okkar menn eru þó hvergi bangnir enda er liðið í stöðugri framför auk þess sem lykilleikmenn á borð við Nebojsa og Kjartan Helga eru að stiga upp úr meiðslum sem hrjáðu þá í byrjun hausts.

 

Sýnt verður beint frá leiknum á Jakinn-TV.

Deila