Fréttir

Körfuboltabúðir 2011 - Viðtal: Ásmundur Guðmundsson

Körfubolti | 08.06.2011
Ásmundur Guðmundsson
Ásmundur Guðmundsson

Ásmundur Guðmundsson kemur úr Stykkishólmi en hann stundaði körfuknattleik í yngri flokkum Snæfells og lék þar m.a. með Nonna Mæju og félögum. Ásmundur er hingað kominn til þess að fylgja Viktori syni sínum, en hann er bráðefnilegur 9 ára körfuboltapúki sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Fréttaritari KFÍ greip Ásmund glóðvolgan að loknum fyrirlestrum þjálfaranámskeiðsins í dag, en hann ákvað að grípa tækifærið og setjast á skólabekk hjá þessum meisturum sem þar boða fagnaðarerindið.

 

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að við feðgarnir eru sammála um að það sé bara alveg ótrúlega gaman að koma hingað og fá að taka þátt í þessu.  Viktor er ánægður með æfingarnar og alla kennsluna sem hann fær.  Leikirnir eru við hæfi og aðbúnaður í íþróttasal er frábær.  Þetta er auðvitað mikið álag en þjálfarar hans hafa lag á því að láta þetta ganga vel þrátt fyrir samtals 2-3 æfingar daglega, það finnst mér merki um að þar séu að störfum reyndir og hæfir þjálfarar í starfi með börnum.

 

Ég átti ekki von á því þegar ég kom, að ég væri að fara að sitja þjálfaranámskeið og hafði ekki hugsað mikið um það. Þegar það stóð þó til boða ákvað ég að slá til og hef ekki séð eftir því.  Breytir það engu þótt ég sé ekki starfandi þjálfari, vegna þess að ég tel þetta færa mér aukinn skilning á íþrótt barnsins míns. Margt hefur breyst á síðustu árum og hér hef ég fengið yfirferð fjölmargra atriða sem eru bara ný fyrir mér. Þetta tel ég að muni hjálpa mér að styðja við strákinn, og t.d. gera það enn gagnlegra þegar við tveir förum í sumar út í körfu. Verð að segja það að lokum að áhugi minn á íþróttinni hefur aukist og dýpkað, var hann þó talsverður fyrir.

Deila