Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2010: Kári Marísson.

Körfubolti | 09.06.2010
Kári Marísson og Rakel Rós Ágústsdóttir leikmaður Tindastóls í 10. flokki kv.   (Ljósm. Helgi Sigmundsson)
Kári Marísson og Rakel Rós Ágústsdóttir leikmaður Tindastóls í 10. flokki kv. (Ljósm. Helgi Sigmundsson)
Kára Marísson þarf ekki að kynna fyrir þeim sem fylgst hafa með íslenskum körfuknattleik síðustu árin.  Hann þekkir vel til í þjálfun yngri flokka og uppbyggingarstarfi í íþróttinni.  Kári er mættur til Ísafjarðar ásamt fríðu föruneyti sem hefur sett mikinn og góðan svip á búðirnar og eru þau öll félagi sínu og heimabyggð, Sauðárkróki til sóma.  Það varð auðvitað ekki undan því komist að fá Kára í örviðtal.

"Ég er mjög ánægður með búðirnar og samanborið við annað sem ég hef kynnst af þessu tagi, er þetta það allra besta hingað til.  Krakkarnir eru mjög sátt og taka eftir þessu góða skipulagi á æfingunum.  Sjálfur merki ég á þeim krökkum, sem ég þekki hvað best, ótrúlegar framfarir á ekki lengri tíma en raun ber vitni.  Ég sé fyrir mér að það að fá hingað þessa erlendu þjálfara, sem koma frá þeim löndum sem standa hvað fremst í þróun körfuboltans (Balkanlöndin og Spánn t.d.), er í raun eins og að stytta sér leið inn í framtíð íþróttarinnar.

Að lokum verð ég að bæta einu við, og það er að hér hefði ég viljað sjá komna alla þjálfara yngri landsliða á vegum KKÍ.  Það hefði orðið bæði þeim og okkur hinum þjálfurunum til gagns og frábær hvatning til þeirra metnaðarfullu krakka sem hingað eru saman komin."

KFÍ-síðan hefur engu við þessi orð að bæta og þakkar Kára fyrir spjallið. Deila