Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2010: Svanhildur Guðlaugsdóttir

Körfubolti | 12.06.2010
Sólrún Inga, Svanhildur og Kristján.  (Ljósm. H.Sigm)
Sólrún Inga, Svanhildur og Kristján. (Ljósm. H.Sigm)

Haukar áttu verðuga fulltrúa í búðunum að þessu sinni.  Svanhildur Guðlaugsdóttir var mætt ásamt syni sínum Kristjáni Sverrissyni og frænku þeirra henni Sólrúnu Ingu Gísladóttur.  Þau frændsystkin eru bráðefnilegir ungir leikmenn Hauka og létu bæði að sér kveða í búðunum.  Þau voru að koma í fyrsta sinn í æfingabúðir á Ísafirði og eins og lesendur síðunnar hafa væntanlega áttað sig á fyrir nokkru, lætur fréttaritari ekki slík tækifæri til örviðtala fram hjá sér fara.  Svanhildur var fús til viðtals og látum við hana fá orðið:

"Þetta er bara meiriháttar.  Flott veður og aðstaðan öll til fyrirmyndar.  Við ætlaðum að koma í fyrra en það náðist ekki af óviðráðanlegum ástæðum og við vildum alls ekki að missa af búðunum í ár.  Krakkarnir eru mjög ánægð og svona framtak er ekki hvað síst mikilvægt hvað félagslega þáttinn varðar, bæði fyrir krakkana og þjálfarana, já og auðvitað líka fyrir foreldra og fararstjóra.  Takk fyrir okkur!"

KFÍ þakkar þeim sömuleiðis eins og öllum öðrum gestum okkar.  Vikan hefur verið viðburðarrík og erilsöm fyrir alla sem tengjast æfingabúðunum, en jafnframt hafa þessir dagar liðið hratt og verið mjög ánægjulegir.  Góða ferð heim, sjáumst á landsmóti í Borgarnesi og í baráttunni í vetur vítt og breitt um landið, og loks vonandi sem flest í Körfuboltabúðum á Ísafirði í júní á næsta ári.

Deila