Fréttir

Körfuboltinn rúllar af stað!

Körfubolti | 04.10.2019
Vestri mætir Snæfelli í fyrsta leik á útivelli í kvöld.
Vestri mætir Snæfelli í fyrsta leik á útivelli í kvöld.

Í kvöld hefur meistaraflokkur karla í körfubolta leik í 1. deild Íslandsmótsins. Vestri mætir Snæfelli í Stykkishólmi kl. 19:15 og verður leikurinn sýndur beint á Snæfell-TV. Fyrsti heimaleikur liðsins fer svo fram 18. október þegar Selfoss kemur í heimsókn.

En það er fleira um að vera um helgina. Á laugardag og sunnudag fer fram fjölliðamót í F-riðli hjá 9. flokki drengja í Bolungavík. Mótið hefst klukkan 13:00 með leik Vestra og Vals en síðasti leikur laugardagsins er kl. 16:45 en þá mætir Vestri Þór Akureyri. Tveir leikir fara svo fram á sunnudagsmorgun kl. 10 og kl. 11:15 þegar Vestri mætir Stjörnunni.

Á sunnudag leikur stúlknaflokkur Vestra einnig sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu þegar stelpurnar mæta Haukum í Bolungavík. Leikurinn hefst kl. 14:00.

Við hvetjum alla til að mæta í Bolungavík um helgina og styðja við bakið á Vestra krökkum.

Nokkrir hópar frá Vestra verða svo á faraldsfæti um helgina auk meistaraflokks. Tíundi flokkur stúlkna á tvo útileiki gegn Ármanni á laugardag og sunnudag og drengjaflokkur mætir Fjölni á laugardag á útivelli. Þá er spilar sjöundi flokkur drengja á fjölliða móti á Selfossi um helgina.

Formlega hófst körfuboltatímabilið samt um síðustu helgi þegar strákarnir í minnibolta eldri (11 ára) hófu leik á Íslandsmótinu í fjölliðamóti sem fram fór í Seljaskóla. Strákarnir stóðu sig gríðarlega vel, sigruðu fjóra leiki af fimm og unnu sig þar með upp um riðil.

Spennandi körfuboltavetur framundan. Áfram Vestri!

Deila