Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi karlaliðs meistarflokks KFÍ fyrir þessa leiktíð. Þar sem keppnistímabilið er hafið er ekki úr vegi að fara yfir leikmannahópinn og kynna hann rækilega fyrir lesendum síðunnar. Næsti leikur KFÍ er heimaleikur gegn ÍA sem fram fer föstudaginn 24. október kl. 19.15.
Segja má að megnið af byrjunarliði síðustu leiktíðar sé horfið á braut en í þeirra stað hafa bæst í hópinn sterkir leikmenn sem við væntum mikils af. Einnig er ánægulegt að fjöldi nýliða er nú í hópnum, auk leikmanna sem hafa tekið fram skóna á nýjan leik. Birgir Örn Birgisson sér um þjálfun liðsins líkt og á síðasta keppnistímabili.
Komnir: Andri Már Einarsson (byrjar aftur), Andri Már Skjaldarson (nýliði), Birgir Björn Pétursson (Valur), Florijan Jovanov (Makedónía), Haukur Hreinsson (Laugdælir), Kjartan Helgi Steinþórsson (Grindavík), Nebojsa Knezevic (KK Proleter Zrenjanin - Serbía), Óskar Ingi Stefánsson (nýliði), Sturla Stígsson (byrjar aftur), Ævar Höskuldsson (nýliði).
Farnir: Hákon Ari Halldórsson (Haukar), Jón Kristinn Sævarsson (Hættur), Valur Sigurðsson (Fjölnir), Ágúst Angantýsson (Stjarnan), Hraunar Karl Guðmundsson (Hættur), Guðmundur Jóhann Guðmundsson (Hættur), Ingvar Bjarni Viktorsson (Hættur), Jón Hrafn Baldvinsson (KR), Mirko Stefán Virijevic (Njarðvík), Leó Sigurðsson (Ármann).
Andri Már Einarsson - Framherji - 1993 - Uppalinn hjá KFÍ en þreytti frumraun sína í meistaraflokk með UMFB tímabilið 2011-2012 þar sem hann var lykilmaður í liði Bolvíkinga sem fór í 8. liða úrslit 2. deildarinnar.
Andri Már Skjaldarson - Bakvörður - 1997 - Nýliði sem kemur upp úr yngri flokkum KFÍ.
Birgir Björn Pétursson - Miðherji - 1986 - Uppalinn hjá KFÍ og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki tímabilið 2003-2004 í úrvalsdeild. Hefur einnig leikið með Njarðvík, Þór Þorlákshöfn, Stjörnunni og nú síðast Val. Á að baki 8 U-21 landsleiki og var valinn í 30 manna æfingarhóp A-landsliðsins í sumar.
Björgvin Snævar Sigurðsson - Framherji - 1994 - Uppalinn hjá Hamar en gekk til liðs við KFÍ í janúar 2013 og hefur leikið 22 leiki með meistaraflokki síðan þá.
Florijan Jovanov - Framherji - 1991 - Gekk til liðs við KFÍ haustið 2009, þá 18 ára gamall, fyrir tilstuðlan Borce Ilievski þáverandi þjálfara KFÍ. Lék bæði með meistaraflokki og drengjaflokki félagsins og sigraði 1. deildina með KFÍ vorið 2010. Var lykilmaður með Goce Delchev í næst efstu deild í Makedóníu á síðasta tímabili en liðið sigraði deildina og fór upp í efstu deild.
Haukur Hreinsson - Bakvörður - 1997 - Haukur er uppalinn hjá Snæfell en lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með KFÍ í úrvalsdeildinni í nóvember 2012. Á síðasta tímabili lék hann með FSu (1. deild) og Laugdælum (2. deild) en skipti yfir í KFÍ í haust.
Helgi Snær Bergsteinsson - Bakvörður - 1996 - Wild Thing kemur upp úr yngri flokkum KFÍ og spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki vorið 2014 er hann skoraði 5 stig á móti Stjörnunni í úrvalsdeild.
Jóhann Jakob Friðriksson - Miðherji - 1994 - Gekk til liðs við meistaraflokk KFÍ síðastliðið haust eftir smá hlé frá körfubolta og lék 28 leiki með félaginu í deild og bikar. Jóhann tók miklum framförum á tímabilinu og var að lokum valinn í æfingarhóp U-20 landsliðsins í vor.
Kjartan Helgi Steinþórsson - Bakvörður - 1994 - Kjartan er uppalinn hjá Grindvíkingum þar sem hann spilaði í fyrra. Hann lék einnig í þrjú ár í Bandaríkjunum í mennta- og háskólaboltanum. Kjartan var ekki lengi að finna sig á Ísjakanum því hann skoraði 22 stig í sínum fyrsta leik þar á móti Tindastól í Lengjubikarnum í haust.
Nebojsa Knezevic - Bakvörður/Framherji - 1987 - Nebo gekk til liðs við KFÍ í haust eftir að hafa leikið með KK Proleter Zrenjanin í Serbíu á síðasta tímabili. Lék með KFÍ í úrvalsdeildinni tímabilið 2010-2011 þar sem hann var með 14,6 stig og 4,5 fráköst í 22 leikjum.
Óskar Ingi Stefánsson - Bakvörður - 1996 - Nýliði sem kemur upp úr yngri flokkum KFÍ.
Óskar Kristjánsson - Bakvörður - 1993 - Steig sín fyrstu skref í körfubolta með yngri flokkum UMFB undir stjórn Karls Jónssonar. Lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki með KFÍ í nóvember 2009. Átti sinn besta leik í meistaraflokki er hann setti niður 6 þrista og skoraði 18 stig á móti Val í úrvalsdeildinni í desember í fyrra. Var í sigurliði KFÍ í 1. deildinni vorið 2012.
Pance Ilievski - Bakvörður - 1980 - Gekk til liðs við KFÍ árið 2006 og hefur leikið með liðinu síðan að undanskildu 2011-2012 tímabilinu þegar hann lék með Bolvíkingum. Á að baki um 140 meistaraflokksleiki í öllum keppnum á Íslandi og var í sigurliði KFÍ í 1. deildinni árið 2010. Kemur upprunalega frá Makedóníu en hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 2014. Er yngri bróðir Borce Ilievski, fyrrverandi þjálfara KFÍ.
Sturla Stígsson - Bakvörður/Framherji - 1979 - Uppalinn hjá KFÍ en steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Bolvíkingum rétt eftir aldarmótin síðustu. Á að baki um 110 meistaraflokksleiki með KFÍ, UMFB og Fúsíjama í 1. og 2. deild.
Ævar Höskuldsson - Framherji - 1996 - Nýliði sem kemur upp úr yngri flokkum KFÍ.
Birgir Örn Birgisson - Þjálfari - Birgir Örn var ráðinn þjálfari meistaraflokks karla árið 2013. Á Íslandi lék hann með Bolungarvík, Þór Akureyri og Keflavík áður en hann hélt til Þýskalands þar sem hann var leikmaður og þjálfari í rúman áratug. Sem leikmaður varð hann tvívegis Íslandsmeistari með Keflavík auk þess sem hann á að baki 26 landsleiki.
Deila