Yngri flokkar Kkd. Vestra fengu góða heimsókn í gær þegar Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir sóttu Ísafjörð heim og sáu um æfingar gærdagsins hjá félaginu. Martin,sem er KR-ingur í húð og hár, er orðinn atvinnumaður í körfubolta og leikur með A-deildarliðinu Châlon-Reims í Frakklandi. Hildur er nýgengin til liðs við Breiðablik en hún spilaði í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Hún er úr Stykkishólmi og því uppalin í Snæfelli.
Þau Hildur og Martin eru á hringferð um landið í átaksverkefni Körfuknattleikssambands Íslands sem nefnist Körfuboltasumarið. Verkefnið er m.a. styrkt af FIBA Europe og miðar að því að hvetja unga iðkendur til dáða, kenna þeim markmiðasetningu og hvað þarf til að ná langt í íþróttinni.
Hringferð Hildar og Martins lýkur í þessari viku en við tekur undirbúningur fyrir landsliðsverkefni síðar á árinu, m.a. þátttaka karlalandsliðsins á Eurobasket í Helsinki í haust.
Sumaræfingum Kkd. Vestra lýkur í dag en síðsumaræfingar verða á dagskrá í ágúst að öllu óbreyttu.
Deila