Fréttir

Lokahóf í Krílakörfunni

Körfubolti | 29.04.2015

Það var sannarlega handagangur í öskjunni í íþróttahúsinu á Austurvegi í dag á síðustu æfingu vetrarins í Krílakörfu KFÍ. Um og yfir tuttugu börn á aldrinu 4-5 ára hafa verið að æfa þar í allan vetur undir röggsamri stjórn Sigríðar Guðjónsdóttur og Rósu Överby.

 

Æfingarnar eru foreldrum að kostnaðarlausu og eru þær hugsaðar til að efla hreyfiþroska og boltafærni barnanna. Greinileg framför hefur orðið í hópnum í vetur en eins og gefur að skilja er ekki hlaupið að því að stýra svo stórum hópi af ungum börnum. Þær Sirrý og Rósa hafa þó gert það listavel.

 

Æfingunni í dag lauk með hollri hressingu í boði KFÍ og svo fengu öll krílin flottan körfubolta í kveðjugjöf frá KKÍ og KFÍ. Hann geta þau notað til að æfa sig vel í sumar og koma vonandi full áhuga aftur á æfingar þegar tekur að hausta. Eldri börnin byrja í grunnskóla í haust og eru því útskrifuð úr Krílakörfunni en geta með haustinu byrjað að æfa í Krakkakörfu KFÍ sem ætluð er börnum í 1.-2. bekk.

Deila