Fréttir

Lönduðu 5. sæti á Scania Cup 2018

Körfubolti | 04.04.2018
Vestramenn, sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms, varð í 5. sæti í sínum árgangi á Scania Cup 2018 í Svíþjóð sem fram fór um páskana.
Vestramenn, sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms, varð í 5. sæti í sínum árgangi á Scania Cup 2018 í Svíþjóð sem fram fór um páskana.
1 af 2

Sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms í 10. flokki drengja í körfubolta tryggði sér 5. sætið á Scania Cup mótinu sem fram fór í Södertalje í Svíþjóð um páskana. Scania Cup er boðsmót félagsliða og þar taka þátt afar sterk lið frá öllum Norðurlöndunum, bæði stúlkna- og drengjalið. Alls tóku 156 lið þátt í mótinu í ár þar af 12 íslensk í ýmsum aldurshópum. Þetta er í fyrsta sinn sem liði frá Ísafirði er boðið til keppni á Scania Cup.

Vestramenn, eins og sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms kallast, keppti í árgangi 2002 en þar voru 16 lið skráð til keppni, þar af þrjú önnur íslensk lið; Valur, Fjölnir og KR. Öll liðin hafa tekist hart á í A-riðli Íslandsmótsins í vetur en um er  að ræða firnasterkan og  breiðan árgang drengja í íslenskum körfubolta. 

Vestramenn, undir stjórn Nebojsa Knezevic, léku samtals fimm leiki á mótinu og höfðu afgerandi sigur í þremur þeirra. Þeir mættu sama danska liðinu tvisvar og töpuðu í fyrri viðureigninni með fjórum stigum en sigruðu með miklum mun í þeim seinni. Úrslitaleikurinn var hins vegar gegn Valsmönnum í áttaliða úrslitum á páskadagsmorgun þar sem Valur hafði betur 64-57 og komst þar með áfram í fjögurraliða úrslitin. Valsmenn gerðu sér síðan lítið fyrir og sigruðu mótið en Fjölnismenn náðu fjórða sæti. Vestramenn lönduðu fimmta sætinu en KR hafnaði í 15. sæti.

Lið 2001 drengja úr Garðabæ varð Scania Cup meistari í sínum aldurshópi en stór hluti liðsins eru drengir fæddir 2002 sem keppa einmitt í A-riðli Íslandsmótsins.  Önnur íslensk lið á Scania Cup í ár voru Hrunamenn/Þór og Breiðablik auk fleiri Fjölnisliða.

Óhætt er að segja að þátttaka í svo sterku móti sé mikilvægt innlegg í reynslubanka Vestramanna en þeir stóðu sig með mikilli prýði. Þeir sýndu og sönnuðu að þeir eiga heima meðal bestu félagsliða Norðurlandanna í árgangi 2002.

Næsta viðureign Vestramanna er síðasta umferð Íslandsmótsins sem fram fer 21.-22. apríl. Efstu fjögur liðin í lokaumferðinni fara áfram í úrslitakeppni Íslandsmótsins sem fram fer 12.-13. maí n.k.

Deila