Fréttir

Myndarlegur hópur frá KFÍ á leið á Nettó-mótið

Körfubolti | 26.02.2014
Hluti af þessum vaska hóp er á leið á Nettó en Birgir Örn, þjálfari meistaraflokks KFÍ fær þó ekki að koma með. Ljósm. Halldór Sveinbjörnsson.
Hluti af þessum vaska hóp er á leið á Nettó en Birgir Örn, þjálfari meistaraflokks KFÍ fær þó ekki að koma með. Ljósm. Halldór Sveinbjörnsson.

Hið árlega Nettó-mót í körfubolta fer fram í Reykjanesbæ um helgina en mótið er ætlað börnum sem fædd eru 2002 eða síðar. Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar hefur sótt mótið mörg undanfarin ár og sendir nú til keppni einn af sínum stærstu hópum frá upphafi. Hópurinn er í óðaönn að undirbúa ferðina en alls eru fimm lið frá KFÍ skráð til leiks, samtals 34 börn á aldrinum 5-11 ára. Með þeim til halds og trausts fara tíu liðs- og fararstjórar og fimm þjálfarar og verða því um fimmtíu manns á vegum KFÍ á mótinu um helgina, fyrir utan ættingja og vini á höfuðborgarsvæðinu sem munu án efa koma og hvetja krakkana til dáða í leikjunum. Einstaklega fjölbreytt dagskrá hefur alla tíð einkennt mótið og allt skipulag er til fyrirmyndar. Engin stig eru talin og allir fara heim með verðlaunapening að móti loknu á sunnudag.

 

Nettó-mótið er samstarfsverkefni barna- og unglingaráða körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur og er nú haldið í 24. sinn. Mótið er hið stærsta sinnar tegundar á landinu og tóku ríflega 1.200 keppendur þátt í því í fyrra allsstaðar að af landinu. Enn fleiri lið eru skráð til keppni í ár og stefnir því í metþátttöku. 

 

Hér eru upplýsingar um NETTÓ mótið 1-2.mars

Deila