Fréttir

Oft er betra heima setið

Körfubolti | 06.01.2011 Það má með sanni segja að oft er betra að hægja á og hugsa, en að taka fljótar ákvarðanir. Í þessu erum við að tala um skrautlega ferð til Sauðárkróks þar sem við töpuðum leik gegn Tindastól eftir níu klukkutíma ferðalag í brjáluðu veðri. Lokatölur 85-71 fyrir heimamenn. Það skal ekki af í Tindastól þeim tekið að þeir spiluðu betur en við og unnu sanngjarnt. Einu mennirnir sem voru með einhverja rænu í leiknum voru Darco, Carl og Ari. Aðrir voru enn í bílunum. Frikki Hreins fór á kostum fyrir heimamenn og var fremstur meðal jafningja þar. Þessi leikur og hörmungarferð er kláruð og ekkert að gera nema læra af henni.

En þessi hörmungarferð skrifast að stórum hluta á stjórn og fararstjóra KFÍ og hefðu menn ekki átt að leyfa okkar mönnum að æða af stað í þessu veðri og eftir að aka út af þrisvar áttu menn að stöðva á næsta örugga stað og láta fresta leiknum. Við erum að spila leik í körfubolta og við eigum ekki að stefna lífum í hættu fyrir körfuboltaleik.

Lagt var af stað frá Ísafirði á fimmtudagsmorgninum kl. 10.00 til þess að koma tímalega á Sauðárkrók. En þessi ferð breyttist brátt í martröð, færð og skyggni var sama og ekkert þar sem brjálað veður var og mjög blint, Svo blint í raun að menn urðu langtímum saman að keyra eftir minni og vegastikum, en það vildi ekki betur til en svo að tveir af bílunum fóru út af og voru menn allt annað en öruggir um sig og sína menn og fór um strákana okkar. Þegar komið var að Staðarskála var enn sama veðrið, en ákveðið að aka í bílalest með dómurum leiksins. Það tókst ekki betur en svo að einn af bílnum týndi þeim sem fóru fyrir og keyrði út af, sem betur fer tókst að koma bílnum upp á veg aftur, en svo blint var og hvasst að það tók drengina um hálftíma lengur að komast til Blönduós. Og þar áttu menn með réttu að stöðva og bíða af sér veðrið, en ennþá þrjóskuðust menn við og fífldirfskan var í fyrirrúmi og var farið af stað í bílalest og komið á Sauðárkrók kl. 19.15 og leiknum frestað um klukkutíma. En strákarnir okkar voru bara engan vegin tilbúnir í leik eftir svona ferð og verður þetta í síðasta sinn sem svona verður gert af kkar hálfu. Þegar gefið er út viðvörun frá Veðurstofu á ekki að hunsa það og þykjast vera einhverjar ofurhetjur. Það á ekki að setja líf fólks í hættu af algjörum óþarfa. Og biðjum við strákana afsökunar á þessari ákvörðun okkar, hún var einfaldlega röng.

Að þessu sögðu þá skal tekið fram að eftir að við urðum veðurtepptir á Sauðárkrók þá væsti ekki um okkur. Gestrisni heimamanna var til mikillar fyrirmyndar, þeir redduðu drengjunum æfingu á föstudeginum og voru okkur innan handar þegar á þurfti að halda og gestgjafar okkar á gistiheimilinu Miklagarði fá sérstakar þakkir frá KFÍ fyrir liðlegheit. Þar var gott að gista þar og þökkum við öllum viðkomandi hjálpina.

Komið var heim á laugardeginum kl. 15.30 og menn voru að vonum fegnir að komast heim. En þessi ferð fer í reynslubankann þar sem alltaf er tekið við, en ekkert gefið til baka...
Deila