Fréttir

Sigruðu alla leiki á lokamóti vetrarins

Körfubolti | 12.04.2017
10. flokkur drengja að móti loknu um helgina ásamt Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara og Nebojsa Knezevic, sem var aðstoðarþjálfari Yngva á mótinu en Nebojsa hefur lengi komið að þjálfun drengjanna.
10. flokkur drengja að móti loknu um helgina ásamt Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara og Nebojsa Knezevic, sem var aðstoðarþjálfari Yngva á mótinu en Nebojsa hefur lengi komið að þjálfun drengjanna.

Síðasta fjölliðamót vetrarins í 10. flokki drengja í Kkd. Vestra fór fram á Torfnesi um nýliðna helgi. Var keppt í B-riðli en Vestradrengir gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leiki helginnar. Þeir hófu keppni í haust í D-riðli og má því með sanni segja að liðið hafi verið á mikilli siglingu allt tímabilið til enda.

Auk Vestra tóku lið Vals, Hauka og Skallagríms þátt en lið Fjölnis þurfti frá að hverfa vegna veðurs en þeir höfðu ætlað að fljúga vestur. Hin liðin þrjú sameinuðustu um rútuferð og þrátt fyrir hremmingar á Steingrímsfjarðarheiði mættu þau galvösk til leiks, tæpum þremur tímum á eftir áætlun, og sýndu oft og tíðum flott tilþrif þrátt fyrir langt og strangt ferðalag. Til að koma til móts við Fjölnismenn býðst þeim að leika sína leiki síðar en þegar þetta er skrifað er óvíst hvort af því verður.

Lið Vestra skipuðu: Daníel Wale Adeleye, Þorleifur Ingólfsson, Stefán Snær Ragnarsson, Hugi og Hilmir Hallgrímssynir, Egill Fjölnisson, Krzysztof Duda, Blessed og James Parilla og Friðrik Heiðar Vignisson. Það er Yngvi Gunnlaugsson, yfirþjálfari Vestra, sem hefur stýrt strákunum með þessu góða árangri í vetur.

Vestri hóf leik gegn grænum og glöðum Borgnesingum og var leikurinn í járnum framan af. Eftir fyrsta fjórðung leiddu gestirnir með þremur stigum, 12-9, og voru heimamenn að fara sérstaklega illa með sín færi enda sóknarleikurinn frekar stirður og hægur. Sami barningurinn var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Liðin skiptust á forystu en þegar um mínúta var eftir af fyrri hálfleik tóku Vestrastrákar við sér undir forystu Huga Hallgrímsonar og skoruðu átta síðustu stigin fyrir hlé. Tilþrif leiksins komu einmitt á þessum kafla þegar Hugi stal boltanum á vallarhelmingi Skallagríms og tróð boltanum og náði þar með forystu fyrir sitt lið, sem það lét aldrei af hendi eftir það. Hálfleikstölur 25-20 fyrir Vestra.

Þriðji leikhluti var algjör eign Vestra sem skoraði 23 stig gegn 10 stigum gestanna í leikhlutanum. Staðan 48-30. Eftirleikurinn var fremur auðveldur enda farið að draga af leikmönnum Skallagríms auk þess sem heimamenn voru farnir að finna taktinn. Lokatölur 60-38 Vestra í vil.

Stig Vestra: Daníel 15, Egill 15, Hilmir 14, Hugi 8, Blessed 6, Stefán 2.

Annar leikur Vestra var gegn Haukum. Líkt og fyrr, þá var jafnræði milli liðanna í upphafi leiks og fram í hálfleik. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 15-10 fyrir Vestra og 31-25 í hálfleik. Í þriðja leikhluta tók Vestri við sér og keyrðu muninn upp í 13 stig fyrir lokaleikhlutann, 46-33. Fjórði leikhluti fer seint í sögubækur, en í honum skiptust liðin á körfum allt til enda og fór svo að heimamenn fögnuðu sigri 68-42 og liðið að spila góða vörn í fyrstu tveimur leikjunum.

Stig Vestra: Egill 13, Daníel 11, Hugi 11, Hilmir 9, Blessed 8.

Lokaleikur mótsins var leikur beggja taplausu liða mótsins, Vestra og Vals. Vestri hóf leikinn betur án þess þó að kafsigla gestina sem hægt og bítandi unnu sig inn í leikinn og hafði Vestri nauma forystu eftir fyrsta leikhluta, 15-13. Valsmenn voru í mestu vandræðum að brjóta niður vörn Vestra og skoruðu aðeins sjö stig í öðrum fjórðungi. Gekk gestunum illa að ráða við hæð Vestra og áttu bestu sóknarmenn Vals í mestu vandræðum með að fá opin skot. Leiddi Vestri því í hálfleik 27-20.

Enn og aftur komu heimamenn dýrvitlausir inn í seinni hálfleik og keyrðu muninn upp í 12 stig 40-28 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Valsmenn reyndu allt hvað þeir gátu til þess að koma sér aftur inn í leikinn en í hvert skiptið sem þeir gerðu sig líklega þá var það iðulega Egill Fjölnisson sem dúkkaði upp með mikilvægar körfur auk þess að halda besta manni Vals í skefjum. Allir leikmenn Vestra komu við sögu í þessum leik líkt og þeim fyrri og sigldu öruggum 56-48 sigri í höfn að lokum.

Stig Vestra: Egill 23, Hilmir 10, Hugi 9, Blessed 7, Daníel 5, Stefán 2.

Vestramenn geta verið mjög sáttir við árangur vetrarins. Liðið tapaði einungis þremur leikjum, tveimur í deild og einum í bikar. Fæstir leikmannanna eru á 10. flokksaldri og því eru þeir reynslunni ríkari fyrir vikið. Einnig hefur breiddin aukist og nýir iðkendur bæst við. Það sem gerir liðið einstakt er að í því eru drengir allstaðar að af Vestfjörðum; Ísafirði, Suðureyri, Hólmavík og Bolungarvík auk þess sem þjálfarinn hóf sinn körfuboltaferil á Tálknafirði. Geta strákarnir verið stoltir af sínum afrekum og gengið hnarrreistir út í sumarið til móts við hækkandi sól.

Deila