Fréttir

Sigur í fyrsta leik !

Körfubolti | 08.10.2022

Fyrsti leikur kkd Vestra var í morgun kl.11.00 og fór undirritaður til að sjá hvort ég gæti eitthvað hjálpað. Mér leið eins og ég væri kominn 36 ár aftur í tímann því þarna voru strákarnir mínir í öllum hlutverkum Shiran formaður, Baldur Ingi í liðinu, Birgir Örn og Þórir að dæma og síðast en alls ekki síst aðstoðar landsliðs þjálfari Ísland og þjálfari Vestra Pétur Már. Og enn fallegra var að sjá púkana þeirra vera að spila. Það var ekki í neinum plönum hjá þeim þegar ég þjálfaði þá í sem að þeir væru að hugsa um barneignir. Það snérist allt um körfuna og að lúkka vel á dansiböllum.

Ég ætla að byrja að hæla liði Snæfells fyrir að vakna 03.00 í nótt og keyra í leikinn.

Þá að leiknum. Fyrstu mínúturnar fóru í að hrista af sér sumarið og sást það alveg til Húsavíkur. En svo byrjaði fjörið og drengir Snæfellsbæjar voru meira tilbúnir og sóttu hart að körfuna og það virkaði flott fyrir þá því margar ódýrar körfu voru komnar á blað en hinu meginn var Marco Jurika óstöðvandi og gerði fyrstu 9 stig Vestra.

Snæfell dreifði stigum sínum bróðurlega á milli sín og voru 18-20 yfir eftir fyrsta leikhluta. En í liði Vestra er “Dúddi Rodman” eða herra Duda sem hreinlega ryksugaði fráköst eins og engin væri morgundagurinn. Áfram sóttu Snæfellingar inn að körfunni og var rauði dregillinn settur upp fyrir þá því svo opin var vörnin. Hálfleikstölur 37-42 og gestir okkar að spila vel.

Pétur hefur heldur betur komið inn í klefa með “Hvað eruð þið að hugsa” með laufblásara að vopni því strákarnir komu með vindblásið hár og byrjuðu að loka vörninni og sækja stig hinum megin eftir að stilla upp og sýna þolinmæði. Nú hrukku Gulli, James, Dúddi og Ingimar í gang og fóru að setja stig á töfluna og loka vörninni og staðan eftir þriðja leikhluta var 65-57 og heimamenn komnir með föst tök á leiknum.

Í byrjun fjórða tóku strákarnir öll völd og voru komnir í 81-65 forustu og sigldu þægilegum 81-71 sigri í fyrsta leiknum.

Í liði Vestra var Marco yfirburða maður og endaði með 40 stig. Ingimar var með 17 stig, Gulli var með 7 sig og spilaði vel og náði nokkrum ruðningur en hann vill vera fyrir öllum. Jón Shiransson og bræðurnir James og Blessed Parilla komu inn á settu þrista við mikinn fögnuð áhorfenda, Dúddi Rodman var með 4 stig en batt vörnina saman og “Hooveraði” lofthelgina á Jakanum. Magnús var með 2 stig. En mestu fagnarlætin urðu þegar Baldur kom inn á en hann á heldur betur söguna í körfunni.

Það sem skóp sigurinn í dag var vörnin í seinni hálfleik þar sem liðið lokaði og læsti með keðjum og látum á leikmenn Snæfells og náðu þeir ekki 30 stigum í seinni hálfleik.

Dómarar leiksins þeir Birgir Örn og Þórir Guðmundsson komust vel frá sínu og hörðum en drengilegum leik.

Umgjörð leiksins var til fyrirmyndar og Shiran og stjórnin fengu Íslandsmeistarann í brauðtertugerð til að gera tvær brauðtertur og voru áhorfendur heldur betur til í að sporðrenna því. Vel mannað ritaraborð var og sjoppan með heitt og með því.

Undirritaður var á moppunni og það er heiður að geta liðsinnt og vera kominn hringinn þar sem ég byrjaði 1972 á sömu græju.

Ég fullyrði að umgjörð Vestra mun toppa allt annað í deildinni í vetur og verður gaman að liðsinna þeim á einhvern hátt.

Gaui Þ.

Deila