Fréttir

Strákar og stelpur á ferð og flugi

Körfubolti | 22.10.2017
Strákarnir knáu í 8. flokki með Birgi Erni Birgissyni, þjálfara, á nýliðnu Íslandsmóti í F-riðli á Selfossi sem þeir unnu með yfirburðum.
Strákarnir knáu í 8. flokki með Birgi Erni Birgissyni, þjálfara, á nýliðnu Íslandsmóti í F-riðli á Selfossi sem þeir unnu með yfirburðum.
1 af 2

Alls taka átta keppnishópar frá Kkd.Vestra þátt í Íslandsmótum yngri flokka KKÍ þennan veturinn, auk unglingaflokks og meistaraflokks karla, og varla mun líða sú helgi á leiktímabilinu þar sem iðkendur félagsins eru ekki í móti. Um síðustu helgi kepptu tveir þeirra á sínum fyrstu fjölliðamótum í vetur en það voru 8. flokkur drengja á Selfossi og minnibolti 10 ára stúlkna í Keflavík.

Sigursælir Vestrastrákar

Þennan veturinn spila drengir fæddir 2004 og 2005 saman í 8. flokki og þar sem engum 7. flokki var teflt fram hjá félaginu á síðasta leiktímabili urðu þeir að hefja keppni í F-riðli sem haldinn var á heimavelli Fsu á Selfossi.

Spilaðir voru þrír leikir á laugardegi og voru Haukar d fyrsti mótherjinn. Strákarnir virtust eitthvað ryðgaðir eftir bílferðina suður auk þess sem þetta var fyrsti opinberi leikurinn þeirra saman. Þeir áttu því í smá erfiðleikum með að finna taktinn í upphafi.  Eftir jafnan fyrri hálfleik fór ryðið af þeim og þeir unnu öruggan sigur á Haukum 41-13.

Annar leikurinn var á móti gestgjöfunum FSu/Hrunamönnum og þar settu menn bara í fluggírinn strax og áttu heimamenn enga möguleika gegn sterkri vörn drengjanna. Lokatölur 50-16.

Þriðji og síðasti leikurinn var svo gegn Haukum C þar sem andstæðingurinn virtist vera búinn á því en okkar strákar áttu nóg eftir og gáfu aldrei grið. Útkoman var öruggur sigur 81-15.

Birgir Örn Birgisson,þjálfari, var að vonum mjög sáttur við frammistöðu sinna manna sem án efa koma tvíefldir til leiks á næsta fjölliðamóti. Með sigri í öllum leikjunum unnu þeir sig upp í E-riðil og verður spennandi að fylgjast með framvindu liðsins í vetur. 

Á sínu fyrsta Íslandsmóti

Á sama tíma og strákarnir spiluðu á Selfossi öttu yngstu stelpurnar okkar, árgangur 2007, kappi við jafnöldrur sínar á fjölliðamóti sem fram fór í Keflavík þessa sömu helgi. Hópurinn taldi alls tíu stelpur og þrjá fararstjóra, sem sáu til þess að allt gengi smurt fyrir sig.

Vestri tefldi fram tveimur liðum á mótinu sem spiluðu samtals átta leiki og unnust tveir þeirra. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel og mátti sjá miklar framfarir hjá hverri og einni þegar leið á mótið. Varnarleikurinn var þéttur og sóknarfærin mörg. Nökkvi Harðarson er þjálfari stúlknanna en hann varð að sinna skyldum sínum við meistaraflokk þessa sömu helgi og því hljóp Ásta María Guðmundsdóttir í hans skarð og stýrði liðunum sköruglega.

Það er mikil upplifun að fara á íþróttamót og bæði var spenningur í stúlkunum fyrir keppninni og tilhlökkun eftir því að hitta aðrar stúlkur sem þær hafa kynnst á hinum ýmsu félagsmótum í gegnum tíðina. Þetta var hinsvegar frumraun þeirra í Íslandsmóti og andrúmsloftið því kannski örlítið frábrugðið fyrri mótum.

Ekki er síður spennandi að vera með liðsfélögunum utan vallararins í ferðum sem þessum og í því felst mikið hópefli, jafnt fyrir foreldra sem og börnin sjálf. Það er samdóma álit þeirra sem voru í þessari ferð að hún hafi verið hin skemmtilegasta og að hópurinn sé þéttari en áður. Á þessum aldri eiga íþróttir barna að snúast meira um skemmtun, gleði og alhliða hreyfingu en minna um keppni.

Hópurinn kann Keflvíkingum bestu þakkir fyrir frábæra gistiaðstöðu og er þegar farinn að hlakka til næstu ferðar á Suðurnesin en það verður að öllum líkindum á hið árlega Nettómót í Reykjanesbæ sem fram fer í mars.

Deila