Karlalið KFÍ og Hamars mættust í kvöld í 1. deild karla í lokaleik beggja liða í vetur. Gestirnir fóru með sigur af hólmi í spennandi en sveiflukenndum leik en lokatölur voru 77-80 og staðreyndin því enn eitt nauma tapið hjá KFÍ í vetur.
Framan af leiknum höfðu KFÍ menn yfirhöndina og unnu fyrstu þrjá fjórðungana. Mest hafði KFÍ 14 stiga forystu um miðbik þriðja leikhluta. En það dugði ekki til því í lokafjórðungnum skorti úthald og einbeitinug hjá heimamönnum til að klára verkefnið. Smátt og smátt söxuðu gestirnir á forskotið og komust svo yfir þegar rúmar sex mínútur voru til leiksloka 64-65 og hleyptu heimamönnum aldrei yfir eftir það.
Stigahæstir í liði heimamanna voru Nebojsa með 32 stig, 7 stolna bolta, 5 stoðsendingar og 3 fráköst. Næstur kom Birgir Björn með 21 stig og 7 fráköst. Gunnlaugur Gunnlaugsson skoraði 10 stig, Björgvin Snævar 6 stig, Pance 4 stig og Andri Már með 4.
Hjá gestunum voru stóru mennirnir bestir. Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 16 stig og tók 10 fráköst og Örn Sigurðsson skoraði 16 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ. Reyndar sýnist skrifar að nöfn leikmanna í tölfræðiskýrslunni stemmi ekki alveg við veruleikann. Þar þar vantar kempuna Lárus Jónsson sem stýrði leik gestanna af öryggi, auk þess sem þjálfari liðsins Hallgrímur Brynjólfsson var á skýrslu. En þetta misræmi verður sjálfsagt lagfært um leið og skrifuð skýrsla leiksins berst í hús hjá KKÍ.
Deila