Síðasta mót vetrarins hjá 10. flokki drengja fór fram í Sandgerði síðustu helgi. Á dagskrá voru þrír leikir í D-riðli þar sem mótherjarnir voru Reynir Sandgerði, Höttur Egilsstöðum og Fjölnir b Reykjavík. Er skemmst frá því að segja KFÍ (Vestri) vann alla sína leiki og stóð uppi sem sigurvegari í riðlinum.
Á laugardeginum mættu þeir liði Hattar frá Egilsstöðum og var greinileg aksturþreyta að hrjá leikmenn beggja liða. Leikurinn gekk hægt fyrir sig og var fátt um falleg tilþrif nema þá helst í síðasta leikhlutanum. KFÍ (Vestri) var með mun sterkara lið og tók fljótlega forustu í leiknum sem lauk með öruggum sigri okkar manna.
Höttur 26 – KFÍ 48
Tryggvi 4 stig
Egill 4 stig
Daníel 10 stig
Blessed 2 stig
Þorleifur 4 stig
Hugi 8 stig
Haukur 13 stig
Hilmir 3 stig
Fyrri leikurinn á sunnudeginum var á móti Fjölni b og var allt annað yfirbragð á okkar mönnum en á laugardeginum. Byrjuðu þeir af krafti og höfðu skorað 15 stig á móti 7 stigum Fjölnismanna eftir fyrsta leikhluta þar sem þeir spiluðu bæði fína sókn og vörn. Þeir síðarnefndu voru hins vegar ekki á því að gefast upp og tóku að saxa á forskotið þannig að í leikhléi var staðan 24-19 fyrir KFÍ (Vestra). Fjölnismenn héldu áfram að spila vel í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í þrjú stig áður en fjórði leikhluti hófst. Mótlætið hafði áhrif á okkar menn sem eyddu tíma og orku í að svekkja sig á skotum sem ekki rötuðu ofan í körfuna og voru of lengi að bakka í vörn. Síðasti leikhlutinn var jafn og spennandi en alltaf tókst KFÍ að hanga á forystunni þótt tæpt væri. Á lokamínútunum setti KFÍ (Vestri) meiri kraft og einbeitingu í varnarleikinn sem skilaði liðinu sigri.
Fjölnir b 43 - KFÍ 46
Tryggvi 3 stig
Egill 6 stig
Daníel 2 stig
Blessed 2 stig
Hugi 10 stig
Haukur 13 stig
Hilmir 10 stig
Seinni leikurinn á sunnudeginum var á móti heimamönnum, Reyni í Sandgerði. Þetta eru nýliðar í körfunni sem voru að keppa á sínu fyrsta móti og var á brattann að sækja hjá þeim í öllum leikjum helgarinnar. Strákarnir í KFÍ (Vestra) tóku því rólega í þessum leik en freistuðust hins vegar fulloft til að fara beint upp í þriggja stig skot í stað þess að spila boltanum. Sama gerðu Reynismenn og var á köflum mikil hlaupakeppni á milli vallarhelminga. Annars spilaði liðið ágætlega og allir strákarnir stóðu sig vel.
Reynir 23 – KFí 86
Tryggvi 5 stig
Egill 2 stig
Daníel 18 stig
Blessed 3 stig
Þorleifur 6 stig
Hugi 6 stig
Haukur 20 stig
Hilmir 26 stig
Deila