Fréttir

Vel heppnuð KFÍ ferð á Nettómótið 2015

Körfubolti | 11.03.2015
Eldra stelpuliðið með Lilju Júlíusdóttur þjálfara
Eldra stelpuliðið með Lilju Júlíusdóttur þjálfara
1 af 4

Um 20 iðkendur á vegum KFÍ tóku þátt í Nettómótinu mikla sem fram fór í Reykjanesbæ um nýliðna helgi. Mótið sem er stærsta körfuboltamót landsins var nú haldið í 25 sinn og voru nærri 1.100 þátttakendur skráðir til leiks af öllu landinu á aldrinum 5-10 ára. Að þessu sinni fóru fjögur lið frá KFÍ en félagið hefur sótt Nettómótin, sem áður hétu Samkaupsmótin, í fjölda ára. Stelpur voru í töluverðum meirihluta að þessu sinni en KFÍ tefldi fram tveimur stelpnaliðum, einu strákaliði og einu blönduðu liði.

 

Enn eitt árið setti veður strik í ferðareikninginn á leiðinni heim en hópurinn varð veðurtepptur á Hólmavík á sunnudeginum þriðja árið í röð. Að öllu öðru leyti gekk helgin einstaklega vel. Mótið var vel skipulagt að venju og KFÍ krakkarnir voru sjálfum sér, félaginu og aðstandendum til mikils sóma. Framfarirnar í tækni og spili eru mjög miklar, varnarleikurinn er alltaf að batna og samspil sömuleiðis.  Félagið getur svo sannarlega verið stolt af hópnum. Ástæða er til að þakka sérstaklega þjálfurunum sem fylgdu krökkunum í keppni en ekki síst fararstjórunum góðu sem gistu með krökkunum og fylgdu þeim hvert fótmál.

 

KFÍ vill einnig koma á framfæri þakklæti til allra þeirra á Hólmavík sem hafa liðsinnt félaginu í þessum árlegu hremmingum. Fyrst er að nefna starfsfólk sveitarfélagsins og húsráðendur í íþróttahúsinu á Hólmavík sem hafa í tvígang gert hópnum kleift að gista í íþróttahúsinu. Starfsfólki Kaupfélags Steingrímsfjarðar er einnig þakkað en það hefur verið boðið og búið að aðstoða hópinn í matarmálunum. Svo verður aðstoðin sem Björgunarsveitin Dagrenning veitti hluta hópsins fyrir tveimur árum seint fullþökkuð sem og liðsinni Ragnheiðar Ingimundardóttur sem var hópnum innan handar í ár líkt og fyrri ár.

Deila