Fréttir

Vestrastúlkur gestgjafar um helgina

Körfubolti | 27.10.2017
Hluti af þessum myndarlega hópi körfuboltastúlkna þreytir frumraun sína á fjölliðamóti á heimavellinum Torfnesi um helgina.
Hluti af þessum myndarlega hópi körfuboltastúlkna þreytir frumraun sína á fjölliðamóti á heimavellinum Torfnesi um helgina.

Stúlkurnar í 7. flokki Kkd. Vestra taka á móti þremur liðum í fyrstu umferð Íslandsmótsins nú um helgina og fer mótið fram á Torfnesi. Gestirnir eru Ármann, Breiðablik og ÍR. Stúlkurnar okkar hefja leik í C-riðli en alls eru riðlarnir fjórir. Í neðstu tvo raðast þau félög sem ekki áttu lið í þessum aldurshópi á síðasta leiktímabili. Þess má geta að talsvert hefur fjölgað í liðum á þessum aldri á landsvísu og er því leikið í fleiri riðlum nú en áður.

Vestrastúlkur hefja leik kl. 15 á morgun, laugardag, og spila þá gegn Breiðablik. Klukkan 10 á sunnudag mæta þær Ármannsstúlkum og loks er það ÍR kl. 12. Þjálfari stúlknanna er Adam Smári Ólafsson, liðsmaður meistaraflokks. Hópurinn samanstendur af stúlkum sem fæddar eru 2005 og 2006 og verður gaman að fylgjast með þeim þreyta frumraun sína á fjölliðamóti. Boðið verður upp á rjúkandi kaffi og heimabakað í sjoppunni og því tilvalið að kíkja við á Torfnesi, gæða sér á veitingum og hvetja heimastúlkurnar til dáða.

En það eru fleiri Vestrakrakkar í mótum þessa helgina. Elstu stúlkurnar okkar í 10. flokki fara suður í DHL Höllina hjá KR og mæta þar heimakonum, Haukum og Valsstúlkum og spila þar fyrstu umferð í B-riðli Íslandsmótsins. Þjálfari elstu Vestrastúlknanna er enginn annar en Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Vestra. Við væntum mikils af Yngva og stelpunum en liðið vann sig upp í A-riðil á heimamóti í Bolungarvík á síðustu leiktíð þótt það lyki síðan vetrinum í B-riðli.

Að endingu eru það svo vösku drengirnir í Minnibolta 11 ára sem eru á leið í fyrstu umferð Íslandsmótsins í þeirra aldurshópi og fer mótið fram í Hertz Helli ÍR-inga í Breiðholtinu. Þetta eru drengir fæddir 2006 og 2007. Það er Gunnlaugur Gunnlaugsson, meistaraflokksmaður, sem þjálfar þennan góða hóp og ná þeir að tefla fram tveimur liðum í mótinu.

Íslandsmót í Minnibolta eru frábrugðin hefbundnum fjölliðamótum að því leyti að allir riðlar mótsins eru leiknir á sama stað og er því um talsverðan fjölda liða að ræða. Leikið er fjóra á fjóra og gert er ráð fyrir fáum varamönnum til að tryggja að allir fái sem mestan spilatíma. Það verður spennandi að fylgjast með gangi mála hjá drengjunum okkar í Vesturbænum 

Deila