Fréttir

Vestri sigraði Scania Cup

Körfubolti | 22.04.2019
Sigurreifir Vestramenn eftir verðlaunaafhendingu!
Sigurreifir Vestramenn eftir verðlaunaafhendingu!
1 af 4

Drengjaflokkur Vestra sigraði í dag hið sterka Scania Cup mót í Svíþjóð í sínum aldursflokki eftir frækilegan sigur á norska liðinu Ulriken Eagles 58-60. Vestri og Snæfell tefla fram sameiginlegu liði undir merkjum Vestra, fjórir liðsmenn koma úr Snæfelli og sex úr röðum Vestra. Þjálfari liðsins er Nebojsa Knezevic.

Vestri hafnaði í öðru sæti síns riðils eftir einn stóran sigur og eitt tap. Í úrslitum mótsins sýndu strákarnir svo heldur betur úr hverju þeir eru gerðir. Þeir hófu leik í sextán liða úrslitum gegn Skuru Basket frá Svíþjóð og unnu öruggan sigur 70-52. Í átta liða úrslitum mættur þeir svo danska liðinu BMS Herlev og unnu 60-68. Í undanúrslitum mættu þeir sænska liðinu Onsala Pirates og unnu öruggan sigur 51-71. Úrslitaleikurinn var, eins og áður segir, gegn norska liðinu Ulriken Eagles þar sem úrslitin réðus í blálokin með sigri Vestra 58-60. Glæsilegur sigur hjá strákunum á þessu sterka móti.

Að mótinu loknu var Hugi Hallgrímsson valinn „Scania King“, verðlaun sem hlotnast þeim leikmanni mótsins sem skarar fram úr, eða MVP (Most Valuable Player). Ísak Örn Baldursson úr Snæfelli fékk svo verðlaun fyrir mesta baráttuhuginn og báðir voru þeir valdir í „All Star“ lið mótsins ásamt tveimur leikmönnum silfurliðsins og einum úr bronsliðinu.

Við færum strákunum, þjálfurum þeirra og öllum sem komu að þessu verkefni innilegar hamingjuóskir.

Áfram Vestri!

Deila