Karlalið Vestra í Mizuno-deildinni í blaki spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu síðastliðinn laugardag, þegar þeir fengu Íslandsmeistara síðasta tímabils í heimsókn, Þrótt frá Nekaupstað.
Fyrirfram var búist við að gestirnir tækju með sér stigin austur, en okkar piltar voru hreint ekki til í það og sýndu sínar bestu hliðar.
Jafnræði var með liðunum fram eftir fyrstu hrinu, og var td staðan 14-14 og 15-15. En eftir það tóku Vestrastrákar frumkvæðið og sigu hægt en bítandi frammúr og kláruðu hrinuna 25-22.
Önnur hrina byrjaði með svipuðum hætti, en fljótlega tóku Þróttarar frumkvæðið og voru yfir í stöðunni 12-9. Þá tóku Vestrastrákar heldur betur við sér og tóku 7 stig á móti 1 hjá Þrótti og snéru stöðunni í 16-13 fyrir Vestra. Mestur varð munurinn í stöðunni 23-17 og kláruðu Vestrastrákar hrinuna nokkuð örugglega 25-20.
Í þriðju hrinu mættu Þróttarar ákveðnir til leiks og skoruðu snemma í hrinunni 9 stig í röð og staðan skyndilega orðin 10-3 fyrir Þrótti. Og þeir bættu heldur í og náðu 9ju stiga forystu, 21-12, 23-24 og 24-15, en þá spýttu Vestrastrákar í lófana og löguðu aðeins stöðuna með fjórum stigum í röð. Þriðju hrinu lauk því 25-19.
Fjórða hrina byrjaði svo nokkuð jöfn þar sem liðin skiptust á að skora. Í stöðunni 6-5 náðu Þróttarar góðri viðspyrnu og skoruðu 4 stig í röð og náðu í framhaldi af því að komast í 12-8. Þá kom rosalegur kafli hjá Vestrastrákum þegar þeir skoruðu 8 stig í röð og snéru taflinu heldur betur við í 17-13. Og áfram héldu okkar strákar og náðu mesta mun í stöðunni 24-17. Hrinan kláraðist svo 25-21 fyrir Vestra og 3 stig staðreynd í fyrsta leik tímabilsins.
Nýji leikmaðurinn okkar, kantsmassarinn Felix, var hreint út sagt frábær, skoraði 11 stig í fyrstu hrinu og 10 í síðustu hrinunni, samtals 32 stig í leiknum. Antonio miðjumaður stóð sig einnig mjög vel með 8 stig úr smössum og 5 hávarnir. Næstu menn þar á eftir í stigaskori fyrir Vestra voru kantsmassarinn Álvaro og díóinn Hafsteinn með 9 stig hvor.
Stigahæstir Þróttara voru kantsmassararnir Miguel og Þórarinn með 10 og 9 stig hvor.
Í leiknum fengu einnig tveir ungir Vestrastrákar að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu, en þeir Sverrir Bjarki Svavarsson og Hákon Ari Heimisson fengu að koma inná í restina á hrinum 2 og 4. Sannarlega efnilegir strákar þar á ferð.
Næstu leikir Vestra verða um næstu helgi ef landlæknir lofar, á móti Álftanesi á föstudagskvöld kl 20:30 og svo á móti Fylki kl 14:00 á sunnudag.
Deila