Fréttir

BÍ/Bolungarvík áfram í 16-liða úrslit Borgunarbikarsins

Knattspyrna | 28.05.2014

BÍ/Bolungarvík tók á móti Fjarðabyggð nú fyrr í kvöld í Borgunarbikarnum á gervigrasvellinum á Torfnesi. Nokkar breytingar voru gerðar á báðum byrjunarliðum fyrir leikinn, en þar einna helst er þar að nefna að fyrirliði heimamanna, Sigurgeir Sveinn Gíslasson byrjaði á bekknum, en hinn 17 ára gamli Elmar Atli Garðarsson fyllti skarð hans frábærlega.

Fjarðabyggðarmenn byrjuðu leikinn mjög vel og þegar um 13 mínútur voru liðnar af leiknum dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu fyrir Fjarðabyggð er Fabian Broich braut á Almari Daða, með þetta voru heimamenn alls ekki sáttir og mótmæltu dómnum harðlega og benntu einnig dómaranum á að aðstoðardómarinn vildi fá að eiga við hann orð. Eftir að samtali þeirra lauk sneri dómarinn sér við og dæmdi hornspyrnu við litla hrifningu gestanna.

Aðeins örfáum augnablikum síðar kom Hákon Þór Sófusson Fjarðabyggð yfir eftir að heimamönnum mistókst að koma boltanum frá sínu eigin marki, boltinn hrökk til Hákonar og lagði hann boltann snyrtilega í nærhornið.

En Adam var ekki legni í Paradís. Aðeins 7 mínútum síðar fékk Andri Rúnar Bjarnason boltann úti á vinstri kanntinum og fór illa með varnarmenn Fjarðabyggðar og var svo tekinn niður af markverði þeirra, Kile Kennedy og dæmd var vítaspyrna. Mark Tubæk fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Klárt víti og spurning hvort að ekki hafi verið hægt að reka Kile útaf fyrir brotið?

Örstuttu síðar komst Ólafur Atli Einarsson einn inn fyrir eftir frábæra sendingu frá Andra Rúnari, en lét verja fra sér, Aaron Spear náði frákastinu en brást bogalistin og skaut framhjá.

Staðan í hálfleik var 1-1. Á aðeins 8 mínútna kafla skoruðu heimamenn þrjú mörk, þar voru að verki, Mark Tubæk með frábæru skoti utan teigs í fjærhornið, Andri Rúnar Bjarnason eftir góða stungu frá Hafsteini Rúnari Hafsteinssyni og svo Andreas Pachipis með skalla eftir hornspyrnu Hafsteins Rúnars. 

Þegar að 20 mínútur voru eftir á klukkunni náði Víkingur Pálmason að minnka muninn fyrir gestina úr vítaspyrnu.

Nær komust gestirnir ekki og sigraði því BÍ/Bolungarvík, Fjarðabyggð með fjórum mörkum gegn tveimur og eru þar með komnir áfram í 16 liða úrslit keppninnar.

Frétt frá Fótbolta.net

Deila