Fréttir

Góðu ReyCup móti lokið.

Knattspyrna | 29.07.2024

3 og 4. flokkar drengja og stúlkna hjá Vestra tóku þátt í hinu árlega ReyCup móti Þróttar í Reykjavík dagana 24.-28. júlí.

Keppt var í 11-manna bolta og voru samtals tæplega 70 iðkendur frá Vestra á mótinu.

Fóru leikirnir fram á æfinga og keppnissvæði Þróttar í Laugardal og Víkings í Safamýri.

Mótið hefur verið haldið síðan árið 2002 og hafa fjölmörg erlend lið tekið þátt í gegnum tiðina.

Nú voru lið frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Afríku, Danmörku og Englandi ásamt íslensku liðunum.

3. flokkur drengja tók þátt í A - liða keppni og eru mörg ár síðan Vestri hefur telft fram liði í þeim styrkileikaflokki.

Drengirnir stóðu sig frábærlega og gerðu sér lítið fyrir og sigruðu sinn riðil.  Voru með 7 stig en í riðlinum voru einnig Keflavík, Grindavík og Grótta.

Í úrsláttakeppninni sigraði Vestri Tindastól en tapaði naumlega fyrir Fram og Afrísku meisturunum í Ascent - Soccer.

Niðurstaðan var 6. sæti í A-liða keppninni sem verður að teljast frábær árangur.

Drengirnir hafa æft gríðarlega vel og vaxið mikið sem leikmenn og lið á þessu keppnistímabili.

Stúlkurnar í 3. flokki stóðu sig einnig vel og spiluðu marga flotta leiki hvar þær stjórnuðu leikjunum að mestu leiti.  Þær hafa æft gríðarlega vel og náð miklum framförum á síðustu misserum.

Stúlkurnar urðu í 5. sæti, sigruðu 3 leiki gerðu 1 jafntefli (2-2 í hörkuleik gegn Austurlandi sem tapaði síðar naumlega úrslitaleiknum) og töpuðu 2 leikjum. Niðurstaðan var 5. sæti og mega stúlkurnar sannarlega vel við una.

Stúlkurnar í 4. flokki spiluðu virkilega flotta leiki hvar þeir einnig stjórnuðu nær öllum leikjum sínum.  Í úrsláttakeppninni sigurðu þær m.a. KA 5-3 í vítaspyrnukeppni en 2-2 var eftir venjulegan leiktíma.  Emilía Rós markmaður varði glæsilega í vítaspyrnukepninni auk þess sem Vestra stúlkurnar skoruðu úr öllum sínum spyrnum.  Niðurstaðan var 6. sæti og hafa stúlkurnar náð gríðarlega miklum framförum á þessu ári enda æft vel.

Drengirnir í 4. flokki spiluðu sannkallaða markaleiki.  Í sínum 6 leikjum skoruðu þeir 25 mörk og var niðurstaðan 5. sæti.

Það býr gríðarlega margt og mikið í þessum flottu drengjum og er ljóst að æfi þeir vel í nánustu framtíð eru þeim allir vegir færir.

Þjálfarar Vestra í ferðinni voru 3 auk yfirþjálfara.

En það voru þau Brentton Muhammad, Sigþór Snorrason og Unnur Hafdís Arnþórsdóttir og unnu þau frábært starf.  Það er mikið álag á þjálfurum í mótum sem þessum og unnu þau gott og faglegt starf.

Fararstjórar og liðsstjórar komu sem fyrr úr hópi foreldra.  Sjálfboðaliðastarf er grunnurinn að öllu íþróttastarfi og þeir foreldrar sem lögðu hönd á plóg unnu sannkallað kraftaverk. Það er gæfa iðkenda og þar með félagsins að eiga slíkt fólk að og þökkum við þeim kærlega fyrir gríðarlega mikið og óeigingjarnt starf í þágu barnanna og félagsins.

Iðkendur frá Vestra voru sem fyrr segir tæplega 70 talsins og héldu þau hópinn vel og studdu hvort annað í blíðu og stríðu.

Var sannarlega góður og ríkur félagsandi í okkar herbúðum sem gefur góð fyrirheit um framhaldið.

ÁFRAM VESTRI.

 

 

 

 

 

Deila