Fréttir

Hvar er hann nú? (nr.2)

Knattspyrna | 28.09.2010 "Hvar er hann nú" er liður á bibol.is þar sem fjallað er um fyrrum leikmenn BÍ/Bolungarvíkur og hvar þeir eru staddir í heiminum í dag. Leikmaðurinn sem fjallað verður um í dag er án efa einn sá umdeildasti sem hefur borið merki sameiginlegs liðs Ísfirðinga og Bolvíkinga, bæði innan vallar sem utan. 

Þetta er að sjálfsögðu engin annar en aukaspyrnusérfræðingurinn og miðjumaðurinn litríki Guðmundur Guðjónsson.

Guðmundur sem jafnframt er kallaður í daglegu tali Gummi fæddist á fjórðungssjúkrahúsinu á Húsavík árið 1978. Hann er einn af þeim fjölmörgu knattspyrnumönnum sem komið hafa frá Húsavík í gegnum tíðina. Gummi bjó í Túngötublokkinni fram til 12 ára aldurs þegar fjölskylda hans fluttist á Seljalandsveg 56, beint fyrir ofan sjálfan Torfnesvöll. Þá hóf Gummi að æfa fótbolta 13 ára gamall með BÍ88. Hans fyrsti þjálfari var Guðmundur Þorkelsson kennari og þar á eftir Pétur Guðmundsson, fyrrum markmaður ÍBÍ og listmálari. Það var síðan undir stjórn Ómars Torfasonar sem að Gummi fékk sitt fyrsta tækifæri í meistaraflokki þá 16 ára gamall í deildarbikarleik á móti Skallagrími. Þar dekkaði hann ekki ómerkari mann en borgnesingin Valdimar K. Sigurðsson sem var þá upp á sitt besta. Næstu tímabil lék hann með Ernir frá Ísafirði þegar nokkrum liðum frá svæðinu var skipt í hin bráðskemmtilega Vestfjarðariðil í 3.deild. Eftir nokkur ár með Erni tók hann eitt sumar með HSÞ-B og skoraði þar 4 mörk í 12 leikjum en ekki fylgdi með hversu mörg mörk HSÞ-B fékk á sig það sumarið. Árið 1999 sendi Gummi frá sér fréttatilkynningu til foyrstu KSÍ og DV að hann væri hættur að gefa kost á sér í landsliðið, sú tilkynning hlaut engin viðbrögð.

Eftir sumarið með HSÞ-B flutti Guðmundur búferlum til Reykjavíkur og hóf að leika með 3. deildar liðinu Úlfunum. Þar stoppaði hann stutt við og hóf að leika með nýstofnuðum meistaraflokki BÍ88 árið 2002. Þar átti Guðmundur hápunkt ferils síns þegar hann tryggði BÍ88 3-2 sigur á ÍH á malarvellinum við Torfnes með þrennu á 12 mínútna kafla í seinni hálfleik. Það sem er athyglisvert við það er að öll mörkin komu úr aukaspyrnum í brjáluðu veðri þar sem vindur, rigning og pollar gerðu markverði ÍH erfitt fyrir. Undirritaður veit aðeins um einn annan leikmann sem leikið hefur sama leik og Gummi á Íslandi. Það gerði Vilhjálmur R. Vilhjálmsson, lögfræðingur með meiru, í leik með Stjörnunni á móti ÍR í 1. deildinni þetta sama ár. Þrenna Vilhjálms kom hinsvegar á 13 mínútna kafla í seinni hálfeik en ekki 12 eins og hjá Guðmundi.

Guðmundur lék alla leiki BÍ88 sumarið 2005 og var því góðu formi þegar meistaraflokkar BÍ88 og UMFB voru sameinaðir vorið 2006. Guðmundur var þarna með eldri mönnum liðisins og sjálfskipaður andlegur leiðtogi liðsins. Hann var jákvæður og hvatti samherja sína áfram á sama tíma og hann barðist fyrir sæti sínu í liðinu með kjafti og klóm. Það var í næstsíðasta leik liðsins í deildinni þegar liðið mætti Ými(B-lið HK) á Skeiðisvelli í Bolungarvík. Liðið varð að vinna leikinn en var komið 0-2 undir eftir 12 mínútna leik. Í seinna marki Ýmis fékk títtnefndur Guðmundur dæmda á sig klaufalega vítaspyrnu. Í kjölfar leiksins fylgdi umdeild bloggfærsla frá "Stuðmundi"(listamannanafn Guðmundar) þar sem hann tjáði sig um atvikið og að hann skildi hvernig líðan Zidane var eftir úrslitaleik HM fyrr um sumarið þar sem hann brást frönsku þjóðinni. Samúel Samúelsson, núverandi ritari í stjórn BÍ/Bol, fylgdi þessu atviki eftir með texta við lagið "Twinkle, twinkle, little star". Textinn var eftirfarandi:

"Zidane, Zidane bjargaðu mér
mér finnst ég vera bregðast fólkinu hér
vinstri kannturinn er mín staða
enda bý ég yfir ógnarhraða úúúú úú....."


Gummi spilaði alla 12 leiki liðsins þegar það rétt missti af sæti í úrslitakeppni 3. deildar þetta árið. Það var síðan í æfingarferð á Algarve í Portúgal, á undirbúningstímabilinu í apríl 2007, þar sem gummi skoraði í 5-2 tapi gegn 1. deildar liði Fjölnis í æfingarleik. Markið náðist á myndband en þar "fíflar" hann Ásgeir Aron Ásgeirsson, son Ásgeirs Sigurvinssonar og núverandi leikmann ÍBV, upp úr skónum og leggur knöttinn laglega í netið. Markið náðist á filmu og úr varð frægt myndband sem undirritaður gerði til heiðurs Gumma.

Tímabilið 2007 var Guðmundur ennþá í lykilhlutverki í liðinu og spilaði nær alla leiki liðsins sem spilaði um 5 laus sæti í 2.deild vegna fjölgunar liða en liðið tapaði fyrir Gróttu og fór þá í fjögurra liða umspil um 5. sætið. Þar sigruðu okkar menn lið Hugins í tveimur stórskemmtilegum leikjum en tapaði þar á eftir fyrir liði Tindastóls sem fór upp um deild í úrslitaleik á Skeiðisvelli þar sem Kristinn Jakobsson dómari fékk mikilmennskubrjálæði. Eftir tímabilið hætti Jónas Leifur Sigursteinsson þjálfun liðsins og við tók Slobodan Milisic. Gummi tók þátt í undirbúningi liðsins fyrir tímabilið 2008 en lék aðeins 1 leik undir stjórn Milo og hætti þar af leiðandi með liðinu.

Í dag er Guðmundur búsettur á Seltjarnarnesi og hefur síðastliðið eitt ár leikið með liði í utandeildinni. Hann er að sjálfsögðu dyggur stuðningsmaður BÍ/Bolungarvíkur og hæstánægður með árangur liðsins í sumar. Bibol.is óskar Guðmundi alls hins besta í lífinu og þakkar honum fyrir hjálpina við vinnslu þessarar fréttar. Deila