Knattspyrna | 16.06.2011
Ég var beðin fyrir þó nokkru síðan að taka mér lyklaborð í hönd og pikka vel valin orð á vefsíðu BÍ/Bolungarvíkur. Markmiðið var að koma með kvenlegt innsæi á síðuna, ég gaf þetta frá mér enda nýgotin ef svo má segja og sagðist koma með pistilinn þegar andinn kæmi. En hver er pikkarinn? Ég er Pálína Jóhannsdóttir, dóttir Jóa Torfa og Helgu. Ég hef leikið knattspyrnu með BÍ og þjálfað fyrir BÍ og Bolungarvík en stend nú í því verkefni að búa til framtíðarleikmenn fyrir okkur vestanmenn ásamt ektamanninum Jóni Steinari Guðmundssyni.
Það var
einhvernveginn svona sem leikur BÍ/Bolungarvíkur og HK kom mér fyrir
sjónir: Það var kannski aðeins of kalt þegar flautað var til leiks.
Áhorfendur virtust klæða sig í hverja einustu spjör í skápum sínum og
mættu dúðaðir. Ekki nóg með það þá var ákveðin útilegustemmning,
tjalddýnur, teppi og tjaldstólar, áhorfendur mættu bókstaflega klyfjaðir
á völlinn. Þá skal ekki gleyma unglingum þessa lands sem hafa allt
annað termostig en hinn venjulegi Íslendingur. Unglingar eru yfir það
hafnir að þurfa yfirhafnir og mæta því bara kúl á því, í leggings og
hettupeysu, jafnvel með rennt frá.
Þrátt fyrir kulda í lofti hefur Gaui
Þórðar samt sem áður skellt leikmönnum sínum í kalda sturtu fyrir leik
því þeir mættu ísjökulkaldir til leiks. Tómas Ingi hefur líklega gefið
leikmönnum sínum heitar danskar rauðar pulsur með mæjonesi sem hann tók
með sér frá Árósum. HK menn voru eiturhressir í byrjun og skelltu inn
marki á fyrstu mínútunum. Pulsurnar klárlega að skila sér! Stúkan tók
við sér eftir það enda þurfti fólk að hafa sig alla við að halda lífi í
þessum kulda. Slegið var á trommur en kuldinn í stúkunni var svo
hrikalegur að áhangendur náðu einungis að kalla fyrra nafn skástriksins
og var því einungis kallað áfram BÍ en ekki áfram BÍ skástrik
Bolungarvík, enda er það afar óþjált. Fólk myndi enda í andnauð eftir
nokkrar setningar af áfram BÍ skástrik Bolungarvík hvað þá í heilan
leik. Hinsvegar held ég að trommarinn hafi farið snemma heim, jafnvel
orðið brátt í brók því það slokknaði dálítið á trommunum.
Bláir virkuðu
hálf máttlausir en náðu samt að skapa sér nokkur færi og virtust þrátt
fyrir máttleysi vera betra liðið. Það varð fljótlega ljóst
hver yrði vinsælasta „stúlkan“ á vellinum en dómarinn var strax farinn
að fá lofræðurnar og hvatningarópin í fyrri hálfleik. Þegar korter var
eftir af fyrri hálfleik var fólk orðið kaffiþyrst enda lítið að gerast í
leiknum. Heitasti staðurinn á Torfnesi var kaffisalan og þangað tók
fólk að streyma. Ég sá að þetta var hluti að leiknum og sendi
ektamanninn eftir kaffi og köku. Það voru nokkrir dropar eftir í
bollanum þegar ektamaðurinn kom með kaffið. Kaffið fór vel í stúkuna og
ég er ekki frá því að orkan hafi streymt inn á völlinn eða að Sigga Lára
hafi skellt hitakremi á strákana þannig að þeir komu löðrandi heitir
inn á og virtust sprækari. Mæjónesið var hinsvegar farið að segja til
sín hjá HK – mönnum og þeir orðnir hálf dasaðir eitthvað.
Tomi sýndi svo
loks Kópavogsbúum hvernig Vestfirðingar veiða fiska og skellti boltanum
í netið. Það hlýnaði um nokkrar gráður við þetta mark og það var kominn
kraftur í bláa liðið. Litli Krókur skoraði svo og eftir það virtist
mæjónesið vera komið alla leið í bræk....nar hjá HK mönnum. Birkir
Sverrison var mættur aftur til leiks en eitthvað virtist dómarinn
misskilja hans aðkomu að leiknum og þá helst tveggja fóta tæklingu
Birkis og fékk hann brottrekstur fyrir afar litlar sakir....!
Dálítið
máttlaus sigur en þrjú stig. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki bara
við hæfi að flytja inn enskar fótboltabullur til að kenna brekkunni hina
ýmsu söngva eins og: the referee is a ...bíb... og svona come on you
blues eða semja nýjan texta við einhver lög. Eftir leikinn var mér
hugsað til stjórnar BÍ/Bolungarvíkur og hvaða vinnu þeir eru að leggja á
sig til að skapa þetta fyrir okkur, þetta er mikil vinna og það er líka
okkar áhangenda að skapa stemmningu. Við getum ekki beðið eins og
spilltir krakkar upp í stúku eftir að fá skemmtiatriðin í hendurnar. Og
þeir sem elska að gagnrýna leikmenn en gætu sjálfir ekki hlaupið yfir
völlinn án innlagnar á lungnadeild Landspítalans notiði kraftinn í að
hvetja!
Og að lokum ég hef bara eina ósk að allir leikmenn
BÍ/Bolungarvíkur hafi sál, spili með hjartanu og gefi sig alla í þetta
verkefni að skapa fótboltamenningu hér fyrir vestan.
Deila