Fréttir

B-liðið brenndi niður netmöskva Akurnesinga

Körfubolti | 01.11.2015
B-liðsmennirnir og brennuvargarnir Baldur Ingi og Pétur Már.
B-liðsmennirnir og brennuvargarnir Baldur Ingi og Pétur Már.

B-lið meistaraflokks KFÍ hélt suður með sjó á sunnudaginn og atti kappi við ÍA-b í 3. deild karla.

Shiran Þórisson, þjálfari, framkvæmdarstjóri og byrjunarliðsleikstjórnandi B-liðsins hafði farið mikinn á leikmannamarkaðinum fyrir leikinn og samið við tvær af helstu stjörnum KFÍ frá síðustu öld, þá Baldur Inga Jónasson og Pétur Má Sigurðsson, um að leika með liðinu í leiknum.

Eitthvað virtist hafa gleymst að tjá hinum ungu Akurnesingum hverjir væru þarna á ferðinni því þeir voru ekkert mikið að mæta þeim við þriggja stiga línuna með þeim afleiðingum að það þurfti að skipta um netin í körfunni á sóknarhelmingi Ísfirðinga eftir hvern leikhluta því þeir félagar kveiktu bókstaflega í þeim.

Báðir settu þeir 8 þriggja stiga körfur í leiknum og hjálpuðu KFÍ að ná 13 stiga forustu um miðbik annars leikhluta, 28-41. Akurnesingar náðu þó að minnka muninn þegar á leið leikinn og þreyta og önnur aldurstengd einkenni fóru að færast yfir Ísfirðinga. Undir lok þriðja leikhluta náðu þeir aftur forustu í fyrsta sinn síðan á upphafsmínútum leiksins og í enda hans stóðu leikar jafnir 72-72. 

En ef Akurnesingar höfðu gert sér einhverjar vonir um að fara með sigur af hólmi þá voru þær vonir kramdar eins og kókdós undir vörubíl strax í byrjun fjórða leikhluta. Ísfirðingar skoruðu fyrstu 11 stig leikhlutans á meðan heimamenn komust ekki á blað fyrr en að fimm mínútum liðnum. Það var þá of lítið og of seint, Ísfirðingar unnu lokafjórðunginn örugglega 9-22 og lokastaðan 81-94.

Þess má geta að samtals setti B-liðið niður 18 þrista í leiknum.

Shiran var að vonum sáttur við sigurinn og kvaðst sérstaklega sáttur við að hafa fengið 49 stig til samans úr framherjalínu liðsins, þeim Pétri (46 stig) og Sturlu (3 stig). Þeir kappar fengu að vita 5 mínútum fyrir byrjun leiks að í ljósi þess að fyrrum landsliðsmiðherjinn Birgir Örn Birgisson nennti ekki að mæta að þeir þyrftu báðir að spila sem framherjar í 40 mínútur í leiknum, þó fyrst og fremst vegna þess að enginn annar í hópnum næði 180 cm að hæð.

Pétur var sem fyrr segir sjóðandi heitur og setti 46 stig sem, samkvæmt lauslegum útreikningum síðunnar, þýðir að hann leiðir landið í stigaskorun per leik á núverandi tímabili. Baldur Ingi kom honum næstur með 28 stig, Rúnar Ingi Guðmundsson átti skínandi góðan leik og setti 8 stig, Shiran Þórisson setti 6 stig og var með á annan tug stoðsendinga, Kjartan Davíðsson setti 3 stig og Sturla Stígsson, loksins laus undan skugga fyrrum landsliðsmiðherjans, setti 3 stig á 40 mínútum.

KFÍ-b er því sem stendur efst og ósigrað í 3. deildinni í vetur, jafnt Stál-Úlfi, Kormáki og Laugdælum að stigum en ofar í stafrófsröðinni.

Deila