Fréttir

Drengir upp um riðil og stelpurnar að gera flotta hluti

Körfubolti | 27.10.2015
KFÍ drengirnir að loknum fyrsta leik gegn Stjörnunni b - lokatölur 47-34.
KFÍ drengirnir að loknum fyrsta leik gegn Stjörnunni b - lokatölur 47-34.
1 af 2

Það var mikið um að vera hjá báðum 8. flokkum KFÍ um nýliðna helgi en þá fór fram fyrsta umferð í Íslandsmótinu í þessum aldurshópi. Drengirnir sóttu Hauka heim í Hafnarfjörð í D-riðli og stúlkurnar voru gestgjafar á Ísafirði, sömuleiðis í D-riðli. Bæði liðin eru ný í Íslandsmóti og hófu því leikinn í neðsta riðli samkvæmt reglum KKÍ. Liðin eru skipuð 12 og 13 ára leikmönnum, en það eru krakkar í 7. og 8. bekk grunnskóla.

 

Drengirnir gerðu sér litið fyrir og sigruðu alla fjóra leiki sína í Hafnarfirði og eru komnir upp í C-riðil. Þeir unnu b-lið Stjörnunnar 47-34, lið Hauka var lagt með 52-24, Valur laut í lægra haldi fyrir okkar mönnum 51-16 og c-lið Stjörnunnar, sem skipað er reynsluminnstu drengjum þess félags varð að sætta sig við 47-16. Af tölunum má sjá að mikill getumunur var á liðunum en lið KFÍ er að stórum hluta skipað drengjum sem alla tíð hafa spilað upp fyrir sig og eru nú í fyrsta sinn að mæta jafnöldrum í Íslandsmóti. Liðið er einnig skipað tveimur Strandamönnum en KFÍ er í góðu samstarfi við Héraðssamband Strandamanna um leikmenn í 8. og 10. flokki drengja.

 

Hákon Ari Halldórsson er þjálfari 8. flokks drengja og hefur honum tekist mjög vel upp í að skapa góða liðsheild og gott samspil hjá drengjunum. Það verður spennandi að fylgjast með framgangi þessa unga drengjaliðs KFÍ í vetur. TIl hamingju með C-riðilinn strákar!

 

Það var ekki síður spennandi að sjá hvernig spánýju liði 8. flokks stúlkna myndi reiða af í sínu fyrsta Íslandsmóti en liðið er m.a. skipað stúlkum sem byrjuðu að æfa körfubolta í haust og eru því að stíga sín fyrstu skref á vellinum. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar stóðu sig frábærlega og börðust af mikilli hörku. Þær urðu að lúta í lægra haldi fyrir liði Stjörnunnar 36-25, en Stjörnustelpurnar komust upp úr riðlinum. Hörkuleikur gegn Haukum hefði auðveldlega getað endað með sigri en tapaðist á lokamínútunni 10-14.KFÍ stelpurnar sigruðu hinsvegar lið Vals örugglega 41-13.

 

Nökkvi Harðarson er þjálfari stúlknanna en hann teflir fram tveimur stúlknaliðum á Íslandsmóti í vetur, 7. flokki og 8. flokki. Æfingahópurinn telur hátt í 20 stúlkur og er því sá langstærsti hjá félaginu um þessar mundir - hann slær meira að segja meistaraflokk karla út í þessari deild. Nökkvi er að gera flotta hluti með hópnum, með Hákon Ara sem aðstoðarþjálfara, og verður bæði spennandi og skemmtilegt að fylgjast með þessum stóra stúlknahópi til framtíðar. Áfram stelpur!

 

 

Deila