Fréttir

Drengjaflokkur í átta liða úrslit eftir sigur á ÍR

Körfubolti | 09.01.2011
Drengirnir sýndu klærnar
Drengirnir sýndu klærnar
Strákarnir í drengjaflokk spiluðu gegn ÍR í bikarkeppni KKÍ í dag og fóru með sigur af hólmi og eru þar með komnir í átta liða úrslit. Þetta er glæsilegt hjá þeim og annan daginn í röð er það liðsheildin sem skóp þennan sigur. Lokatölur 71-61.

Það voru syfjaðir drengir beggja liða sem mættu á Jakann í morgun, enda óvanir að vakna fyrr en þegar langt er liðið á sunnudaga og er það skiljanlegt Þar sem tekið er fram að samkvæmt allri venju er hvíldardagur fyrirskipaður þessa vikudaga. En bæði lið voru fljót að hlaupa það úr sér og eftir nokkuð jafnan  fyrsta leikhluta voru KFÍ drengirnir með fimm stiga forskot og staðan 19-15.

Annar leikhluti byrjaði vel fyrir okkur og náðum við 23-16 stöðu, en þá skelltu ÍR drengirnir í lás og byrjuðu að spila  vel í vörn og sókn og okkur var fyrirmunað að koma boltanum á milli manna eða komast í skot í körfuna. Þetta nýttu gestirnir sér og náðu að breyta stöðunni úr 25-16 í 25-25 og kominn alvöru leikur. Liðin skiptu svo með sér körfum og þegar tölt var til leikhlés var staðan 30-28 fyrir KFÍ.

Þriðji leikhlurinn var í járnum og eftir þriggja mínútna leik komust ÍR yfir og staðan 32-33, en þá komu tvær körfur frá Nonna og Gaut og staðan 36-33, Það var svo Sævar Vignisson sem gerir 11 stig á síðustu fimm mínútunum og Stebbi 2 og við héldum til síðasta leikhluta með 4 stiga forskot 49-45.

Í síðasta leikhlutanum náðu ÍR að jafna leikinn í 51-51, en okkar drengir voru mun ákveðnari og silgdu leiknum í örugga höfn og lokatölur eins og áður var ritað 71-61.

Enn og aftur var það vörnin sem skilaði þesum sigri og þegar boltinn var látinn flæða fengum við góð skot og auðveldar körfur. Liðsheildin var góð og allir níu leikmenn KFÍ settu stig í þessum leik. Jói var lasinn, Hermann meiddist í gær og Óskar komst ekki frá Bolungarvík. Innáskiptingar Carls þjálfara voru góðar og kom hann skipunum sínum átakalaut til drengjanna og hvatti þá mjög til dáða sem varð til þess að allir voru á tánum og spiluðu sem einn.

Stigaskor. Sævar 18, Leó 13, Sigmundur 9, Hákon 7, Nonni 7, Gautur 6, Ingvar 5, Guðni 4, Stebbi 2.

Áfram KFÍ. Deila