Fréttir

Fáliðaður 9. flokkur drengja aftur í B-riðil

Körfubolti | 29.11.2016
Eftir keppni á laugardag skruppu Vestramenn í bíó í Egilshöllina og kíktu í leiðinni á frábæra knattspyrnuaðstöðu Grafarvogsbúa.
Eftir keppni á laugardag skruppu Vestramenn í bíó í Egilshöllina og kíktu í leiðinni á frábæra knattspyrnuaðstöðu Grafarvogsbúa.

Drengirnir í 9. flokki Vestra öttu kappi í A-riðli í annarri umferð Íslandsmótsins í körfubolta um nýliðna helgi en mótið var haldið af Fjölni í Grafarvogi og fór fram í Rimaskóla. Í A-riðli spila bestu lið landsins og því mikil áfangi að ná þangað, en strákarnir sigruðu alla sína leiki í fyrstu umferð Íslandsmótsins í síðasta mánuði og tryggðu sér þannig sæti í A-riðlinum nú.

Lið Vestra skipuðu þeir Egill Fjölnisson, Hilmir Hallgrímsson, Blessed Parilla, James Parilla, Alexander Leon Kristjánsson og Friðrik Vignisson. Hugi Hallgrímsson var ekki með að þessu sinni vegna veikinda. Yngvi Gunnlaugsson er þjálfari strákanna og léku þeir undir hans stjórn á mótinu.

Valur var fyrsti andstæðingur Vestra um helgina. Valsmenn hrósuðu Íslandsmeistaratitli í vor og því verðugur andstæðingur fyrir okkar menn sem komu sterkir úr startholunum. Valsmenn áttu í töluverðum vandræðum með okkar stráka sem leiddu með einu stigi, 10-9, eftir fyrsta leikhluta. Í byrjun annars leikhluta náði Vestri mest 10 stiga forystu og áttu Valsmenn fá svör við góðum leik Vestramanna sem leiddu með 7 stiga mun í hálfleik, 29-22.

Í seinni hálfleik tók Valur við sér og jafnframt fór að draga af Vestrastrákum enda aðeins með einn varamann. Valur snéri leiknum sér í vil í þriðja leikhluta og leiddi í leikhlutaskiptunum með 8 stigum. Vestri var ekki á þeim buxunum að gefast upp en þrátt fyrir að okkar menn legðu aldrei árar í bát þá landaði Valur sigri, 55-44.

Seinni leikur dagsins var gegn silfurliði síðasta árs, Keflavík. Líkt og í fyrri leiknum leiddi Vestri framan af leik og í raun áttu Keflvíkingar í mesta basli með að hemja spræka Vestfirðinga sem leiddu í hálfleik 41-33. En líkt og í fyrri leiknum fór að draga af Vestra jafnframt sem fleiri Keflvíkingar fóru að finna fjölina sína. Lokatölur urðu 77-70 fyrir Suðurnesjamenn í fjörugum og skemmtilegum leik.

Fyrir fram mátti gera ráð fyrir þreyttum Vestramönnum á sunnudeginu og svo varð raunin enda tekur á að spila heilt mót með aðeins sex manns í liðinu. Þrátt fyrir ágæta spretti þá máttu okkar drengir sín lítils gegn heimamönnum í Fjölni annarsvegar og KR hinsvegar. Vestri lenti á vegg í seinni hálfleik gegn Fjölni eftir að vera undir 33-25 í hálfleik. Fjölnir lék við hvurn sinn fingur í seinni hálfleik og uppskar óþarflega stóran sigur, 71-43.

Fljótlega varð ljóst í hvað stefndi gegn sprækum KR-ingum sem ætluðu sér að komast á beinu brautina eftir stórt tap gegn Keflavík daginn áður. Drengirnir okkar voru gjörsamlega bensínslausir eftir hetjulega frammistöðu yfir helgina og voru því lítil fyrirstaða fyrir fríska Vesturbæinga að þessu sinni. Lokatölur 73-41.

Heilt yfir stóð Vestri sig með miklum sóma og oft var hrein unun að fylgjast með þeim. Strákarnir máttu illa við því að missa Huga Hallgrímsson úr leik að þessu sinni en það er samdóma álit að þessi reynsla eigi bara eftir að styrkja liðsheildina er lengra sækir. Að ósekju gæti þessi flokkur auðveldlega barist við bestu lið landsins í náinni framtíð ef liðið hefði úr fleiri leikmönnum að moða. Því hvetjum við alla áhugasama að líta við á næstu æfingar og taka þátt í þessari skemmtilegu vegferð sem framundan er en strákarnir eru staðráðnir í að vinna sig aftur upp í A-riðil í þriðju umferð Íslandsmótsins, sem fram fer í febrúar.

 

Deila