Fréttir

Flaggskipið hóf tímabilið með sigri

Körfubolti | 13.02.2021

Fyrsti leikur 3. deildar karla fór fram á Hvammstanga í dag kl 13:00 þegar heimamenn í Kormáki fengu sjálfskipað Flaggskip Vestra í heimsókn.

Eftir jafnræði í fyrstu þremur leikhlutunum þá settu B-liðsmenn upp flugeldasýningu í lokafjórðungnum með sex þriggja stiga körfum og gerðu út um leikinn sem endaði 52-69 gestunum í vil.

Skipstjóri Flaggskipsins að þessu sinni var þungaviktarmaðurinn Stígur Berg Sophusson, sökum þess að hann var sá eini innan hópsins með pungaprófið, og kvaðst hann í samtali eftir leikinn vera ánægður með sigurinn sem hefði aldrei verið í hættu og blés á allar sögusagnir um að hann hefði hótað liðinu með að þeir myndu labba heim ef þeir færu ekki að rífa sig í gang skömmu áður en þeir settu upp þriggja stiga sýninguna í lokaleikhlutanum.

Stigahæstur hjá Vestra var Arnaldur Grímsson með 22 stig en næstir komu Blessed Parilla með 16 stig og Krzystof Duda með 10 stig. Þess má geta að Arnaldur var að hefja feril sinn með Vestra-b á sama velli og faðir hans, Grímur Atlason, spilaði sinn síðasta, og líklegast besta, leik á stuttum meistaraflokksferli með sama liði fyrir að verða tveimur árum.

Hjá Kormáki voru atkvæðamestir Eyjólfur Unnarsson með 14 stig og Ólafur Sigurbjartsson með 10 stig.

Vestri-b
Arnaldur Grímsson – 22 stig, 3 þristar, 4 villur
Blessed Parilla – 16 stig, 5 þristar
Krzystof Duda – 10 stig, 3 villur
Ingimar Baldursson – 8 stig, 2 þristar, 2 villur
James Parilla – 6 stig, 2 þristar, 1 villa
Stígur Berg Sophusson – 4 stig, 3 villur
Egill Fjölnisson – 3 stig, 1 villa
Þorleifur Ingólfsson – 2 villur

Kormákur
Eyjólfur Unnarsson – 14 stig, 2 villur
Ólafur Sigurbjartsson – 10 stig, 2 villur
Róbert Guðmundsson – 9 stig, 5 villur
Ingvi Guðmundsson – 9 stig, 2 þristar, 1 villa
Benjamín Oddsson – 7 stig, 1 villa
Ragnar Smári Helgason – 3 stig
Einar Valur Gunnarsson – 3 villur
Eggert Már Stefánsson – 1 villa
Eysteinn Kristinsson – 1 villa
Sveinn Óli Friðriksson – 1 villa

Deila